Skráningum kynsegin einstaklinga fjölgaði um 75% árið 2022
Kynlegar tölur, samantekt sem unnin er af Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar á hverju ári, er komin á heimasíðu Reykjavíkurborgar reykjavik.is.
Í samantektinni má finna tölulegar upplýsingar sem ætlað er að varpa ljósi á ólíka stöðu kynjanna í Reykjavík, og víðar. Í ár var sjónum beint að innflytjendum bæði í Reykjavík og erlendis, ofbeldi, aldurssamsetningu eftir hverfum og fleiru.
Samkvæmt manntali í Reykjavík fjölgar skráningum kynsegin einstaklinga um 75% á milli fyrsta og fjórða ársfjórðungs 2022.
Árið 1996 voru innflytjendur í Reykjavík 2.700 en árið 2022 voru 30.407 innflytjendur búsettir í Reykjavík. Flestir innflytjendur í Reykjavík hafa búið hér í 11 ár eða lengur, 28%. Flest sem flutt hafa til Reykjavíkur undanfarin ár eru innflytjendur.
Flest á aldrinum 100 ára og eldri í Reykjavík eru búsett í Laugardal á meðan flest á aldrinum 0-19 ára eru búsett í Breiðholti.
Fæðingartíðni í Reykjavík hefur farið hækkandi en árið 2021 fæddust 1.770 börn sem er minna en metárið 2009 þegar 1.975 börn fæddust.
Íslendingar búsettir erlendis voru samtals 48.951 árið 2022. Þar af eru 5 kvár, 25.056 konur og 23.890 karlar.
Frá árinu 2010 til ársins 2020 voru 6 konur myrtar af maka og 2 karlar. Gerendur voru 6 karlar og 2 konur.
Fólki er tíðrætt um hunda í Reykjavík og samkvæmt Dýraþjónustu Reykjavíkur eru 2.400 skráðir hundar í Reykjavík, 57% þeirra eru rakkar og 43% tíkur.