Skráning í Músíktilraunir í fullum gangi - lokadagur í dag

Músíktilraunir 2024

Nú styttist óðum í að einn af merkilegustu tónlistarviðburðum ársins Músíktilraunir bresti á, en þær munu fara fram í Hörpu frá 10.–16. mars. Skráning þátttakenda fer fram á heimasíðu á heimasíðunni www.musiktilraunir.is og lýkur skráningu í dag 19. febrúar

Músíktilraunirnar eru og hafa allt frá upphafi 1982 verið einn af hornsteinunum í íslensku tónlistarlífi. Þar fær ungt tónlistarfólk  á aldrinum 13–25 ára að leika listir sínar við bestu mögulegu aðstæður í Hörpu fyrir framan sal áhorfenda.  

Hátíðin er og hefur verið stökkpallur fyrir ungt tónlistarfólk þar sem það fær tækifæri til að spila við góðar aðstæður, kynnast öðru tónlistarfólki og freista þess að vinna til veglegra verðlauna sem getur síðan hjálpað þeim í sinni tónlistarvegferð.

Músíktilraunir eru alvöru tilraunir þar sem bílskúrsbönd, brasarar, tónlistarskólabönd eða sólósnillingar hafa stígið á svið, stillt strengi og þanið raddböndin. 

Oft og tíðum hafa hljómsveitir verið stofnaðar sérstaklega til þátttöku í keppninni og þar mátti í fyrsta skiptið heyra í snilldar hljómsveitum á borð við Of Monsters and Men, Vök eða RetRobot með Daða Frey innanborðs.

Stúlkur hafa verið sigursælar undanfarin tvö ár en Kusk stóð uppi sem sigurvegari 2022 og stelpurnar í Fókus tóku sigurinn heim í sveitina í fyrra. 

Það verður spennandi að sjá, upplifa og fylgjast með hver mun hreppa titilinn sigurvegari Músíktilrauna í ár. 

Það er til mikils að vinna og því ættu tónlistariðkendur að aldrinum 13-25 ára að hlaupa til og skrá sig til leiks nú þegar opið er fyrir skráningu sem stendur fram til 19. febrúar.