Borgarráð samþykkti í dag að mælast til þess að stofnaður verði starfshópur í samvinnu við nágrannasveitarfélögin Ölfus og Voga, sem hefur að markmiði að finna framtíðarstaðsetningu íþróttamiðstöðvar skotíþrótta. Jafnframt var samþykkt að vinna að aðalskipulagsbreytingu sem heimilar starfsemi skotfélaganna á Álfsnesi til ársloka 2028.
Skipaður var starfshópur í janúar síðastliðnum um framtíðarlausn á uppbyggingu og staðsetningu svæðis fyrir skotíþróttir. Hlutverk hópsins var að leggja fram tillögur að framtíðarstaðsetningu fyrir íþróttamiðstöð skotíþrótta í samræmi við 13. grein íþróttalaga, í samráði við sveitastjórnir á höfuðborgarsvæðinu gegnum SSH (Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu), íþróttahreyfinguna, skotfélögin og íslenska ríkið. Mannvirki íþróttamiðstöðvar yrði reist utan alfaraleiða og fjarri byggð og myndi nýtast öllum íþróttafélögum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Hópurinn leitaði til EFLU verkfræðistofu sem vann áfangaskýrslu og kostnaðarmat fyrir mögulegar staðsetningar.
Tillögur um lausnir í náinni framtíð og til lengri tíma
Starfshópurinn skilaði minnisblaði ásamt tillögum og skýrslu til borgarstjóra í lok september.
Tillögur hópsins eru tvær. Annars vegar er lagt til að borgarráð beini til stjórnar SSH að beina til svæðisskipulagsnefndar að stofna starfshóp í samvinnu við nágrannasveitarfélögin, Ölfus og Voga, sem hefur að markmiði að finna framtíðarstaðsetningu íþróttamiðstöðvar skotíþrótta. Byggt verði á fyrirliggjandi kostnaðarmati og staðarvalkostum úr skýrslu EFLU.
Hin tillagan felur í sér að borgarráð feli umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar að vinna að aðalskipulagsbreytingu sem heimilar starfsemi skotfélaganna á Álfsnesi og tryggir öruggar heimildir fyrir starfseminni út árið 2028. Báðar tillögurnar voru samþykktar.
Staðsetning utan alfaraleiðar ekki endilega talin best
Í skýrslu EFLU er að finna 17 staðsetningar, bæði innan og utan höfuðborgarsvæðisins og lagt til að skoða níu þeirra nánar. Það er mat starfshópsins að staðsetning skotíþróttasvæðis utan alfaraleiðar eigi ekki endilega að vera megin viðmið í staðarvali. Svæði utan alfaraleiðar séu kyrrlát og líkleg til að hafa útivistargildi til framtíðar en umhverfisáhrif verði hlutfallslega minnst séu skotvellir staðsettir í grennd við aðra starfsemi eða landnýtingu sem veldur neikvæðum áhrifum, svo sem við hraðbrautir, akstursíþróttasvæði, iðnaðarstarfsemi og flugvelli. Í minnisblaði hópsins kemur jafnframt fram aðalskipulagsbreyting sem tryggi veru skotfélaga á Álfsnesi til skemmri tíma þurfi að fá framgang sem fyrst, enda muni taka nokkurn tíma að klára endanlegt staðarval, undirbúa nýtt svæði, semja við landeigendur, vinna skipulag og umhverfismat og hanna og undirbúa framkvæmdir. Af þeim níu kostum sem lagt er til að skoða frekar eru sex utan Reykjavíkur, þar af tveir utan höfuðborgarsvæðisins. Því þurfi framhaldsvinna við staðarvalsgreiningar helst að fara fram á nýjum vettvangi.
Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar.