Borgarráð - Fundur nr. 5719

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 12. október, var haldinn 5719. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:08. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Heiða Björg Hilmisdóttir, Pawel Bartoszek og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Einar Þorsteinsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ívar Vincent Smárason, Theodór Kjartansson og Þorsteinn Gunnarsson. Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. október 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. október 2023 á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Fossvogsblett 2-2A, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23050069

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Æskilegra hefði verið að finna svo stórum leikskóla heppilegri staðsetningu en við Fossvogsblett 2 og 2a. Eins og fram hefur komið í athugasemdum íbúa er Fossvogsgata þröng, með gangstétt aðeins öðrum megin, og hentar því ekki hinni miklu umferð sem mun óhjákvæmilega fylgja stórum leikskóla. Mikilvægt er að fram fari ríkt samráð við íbúa um uppbygginguna en sannarlega er nauðsynlegt að fjölga leikskólarýmum í hverfinu.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi sósíalista samþykkir þessar áætlanir en vekur athygli á þeim mikla fjölda sem gert er ráð fyrir, um 150 börn á 10 deilda leikskóla. Mikilvægt er að staðið verði við að halda gróðri umhverfis leikskólann. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins fagnar því megininntaki deiliskipulagstillögunnar að stefnt sé að því að fjölga leikskólaplássum í hverfinu með byggingu nýs leikskólahúsnæðis. Mikill skortur er á leikskólaplássum í hverfinu. Þær athugasemdir sem hér liggja fyrir snúa að skorti á samráði, s.s. hvernig var staðið að kynningu tillögu að nýju deiliskipulagi. Mikilvægt er einmitt að standa vel að kynningum. Allir íbúar eiga að fá góðar upplýsingar svo að hver og einn geti búið sig undir breytingarnar og bent á það sem betur má fara.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. október 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. október 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis fyrir tímabundna skiptistöð Strætó, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23090029

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að tryggja líka góða inniaðstöðu fyrir strætófarþega, þar sem m.a. er hægt að komast á salernið. 

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 9. október 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir hjúkrunarheimili að Mosavegi 23, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23100056

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrika mikilvægi þess að fjölga hjúkrunarrýmum í borginni en telja þessa tilteknu staðsetningu óheppilega, ekki síst vegna fjarlægðar frá margvíslegri stoðþjónustu. Betur færi á því að nýta lóðina til dæmis til stækkunar Borgarholtsskóla, uppbyggingar lífsgæðakjarna eða þéttingar byggðar í Grafarvogi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að  fjölga eigi hjúkrunarrýmum í borginni. Nú hefur nýlega verið rætt um lífsgæðakjarna og í því sambandi verið lögð sérstök áhersla á nálægð við ólíka þjónustu og afþreyingu fyrir þennan aldurshóp. Spurning er hvort þessi atriði hafi verið skoðuð sérstaklega í þessu tiltekna sambandi.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 9. október 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir 65 íbúðir fyrir námsmenn á lóðum við Arnarbakka 2-4, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23100005

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að hverfiskjarnar verði efldir svo að góð þjónusta verði í nærumhverfinu. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta Byggingarfélagi námsmanna lóð og byggingarrétti fyrir 65 íbúðir fyrir námsmenn á lóðum við Arnarbakka 2-4. Fulltrúi Flokks fólksins er ánægður með að þarna verði íbúðir fyrir námsmenn. Gæta þarf að aðgengi að þessu svæði vegna þéttingar og að auðvelt verði að komast inn og út í hverfið á hverju því farartæki sem fólk kýs að nota, bíl eða hjól. Umferð til og frá Breiðholtinu er erfið á annatímum og virkilegt vandamál. Þeir sem geta notað almenningssamgöngur eiga vissulega stutt að fara niður í Mjódd þar sem Strætó hefur biðstöð.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 10. október 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að endurúthluta fimm lóðum við Brekknaás 2, 4 og 8 og Selásbraut 130 og 132, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23090188

    Fylgigögn

  6. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 12. október 2023, um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024, mál nr. 1/2023.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23090142

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 10. október 2023, varðandi umsögn Reykjavíkurborgar um tillögu til þingsályktunar um stefnumótanadi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024-2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028, ásamt fylgiskjölum. MSS23100065

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er Reykjavíkurborg að veita umsögn. Farið er vítt og breitt og tekið undir flest. Sá hluti sem snýr að börnum er t.a.m. að Reykjavíkurborg „styður verkefni um vellíðan ungra barna og barnafjölskyldna enda er það í samræmi við mótun heildstæðrar stefnu og aðgerðaáætlunar Reykjavíkurborgar.“ Hér finnst fulltrúa Flokks fólksins vanta að minnst sé á biðlistavandann sem bæði er mikill í Reykjavíkurborg og í stofnunum á vegum ríkisins. Það hefði verið lag hér að hvetja ríkisstjórnina til sameiginlegs átaks til að uppræta biðlista barna. Börn sem búa við vanlíðan og erfiðar aðstæður eiga ekki að þurfa að bíða eftir þjónustu. 

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. október 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að beina því til stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að því verði beint til svæðisskipulagsnefndar að stofna starfshóp í samvinnu við nágrannasveitarfélögin, Ölfus og Voga, sem hafi það að markmiði að finna framtíðarstaðsetningu íþróttamiðstöðvar skotíþrótta. Byggt verði á fyrirliggjandi kostnaðarmati og staðarvalkostum er koma til greina í hjálagðri skýrslu EFLU, dags. 21. júní 2023. Jafnframt er lagt til að borgarráð samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði að vinna að aðalskipulagsbreytingu sem heimili starfsemi skotfélaganna á Álfsnesi. Þar verði tryggðar öruggar heimildir fyrir starfsemi félagsins til ársloka 2028.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Haraldur Sigurðsson, Eiríkur Björn Björgvinsson, Rósa Magnúsdóttir og Vigdís Þóra Sigfúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23100050

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar telur mikilvægt að finna staðsetningu fyrir framtíðaraðstöðu skotíþrótta á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir liggur vönduð vinna við greiningu valkosta en ókleift er að leiða málið til lykta án aðkomu fulltrúa annarra sveitarfélaga. Tillagan er því að vísa þessari vinnu til stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og í framhaldinu fái svæðisskipulagsnefnd verkefnið til sín.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja brýnt að fundin verði framtíðarstaðsetning fyrir skotíþróttir. Þann 13. janúar 2023 var skipaður starfshópur um framtíðarlausn í málinu. Nú liggur niðurstaða starfshópsins fyrir: Stofna skal annan starfshóp. Lengi er von á einum.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista tekur undir mikilvægi þess að fundin verði viðeigandi framtíðarstaðsetning. Ekki er hægt að samþykkja að starfsemi skotfélagsins verði í Álfsnesi til ársloka 2028 þar sem slíkt hefur valdið íbúum ónæði og mikilli hávaðamengun.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrirhuguð er aðalskipulagsbreyting, sem felur það í sér að núverandi og óbreytt starfsemi verði áfram í Álfsnesi til skemmri tíma. Mikil óánægja hefur ríkt með að þetta sport skuli vera stundað svo nærri byggð og viðkvæmu fjörulífríki. Neikvæð umhverfisáhrif hafa verið mikil og þá einna helst af tvennum toga, ónæði vegna hávaða og mengun af völdum blýhagla. Reynt hefur verið að draga úr áhrifum með mótvægisaðgerðum. Mótvægisaðgerðir eru góðar eins langt og þær ná en ekki hefur verið skilgreint hver eigi að borga fyrir þær. Skotvellir eru í eðli sínu starfsemi sem hefur neikvæð umhverfisáhrif og er skilgreind sem mengandi starfsemi skv. reglugerð 550/2018 um losun frá atvinnustarfsemi og mengunarvarnaeftirlit. Fulltrúi Flokks fólksins harmar að áfram skuli eiga að leggja þetta á íbúa Kjalarness. Betra hefði verið að þessi íþrótt flyttist strax á annað líflítið bráðabirgðasvæði og þar sem fólk verður ekki fyrir ónæði á meðan leitað er að framtíðarlausn.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 10. október 2023, þar sem skýrsla nefndar um heildstæða athugun á starfsemi vöggustofu að Hlíðarenda og vöggustofu Thorvaldsenfélagsins er send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum.
    Vísað til borgarstjórnar. MSS23090194

    Fylgigögn

  10. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 10. október 2023, varðandi eftirfylgni á skýrslu nefndar um heildstæða athugnun á starfsemi vöggustofunnar að Hlíðarenda og vöggustofu Thorvaldsenfélagsins.
    Samþykkt. MSS23090194

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að frekari athuganir verði gerðar þannig að rannsóknin nái til ársins 1979. Líkt og kemur fram í athugasemdum Réttlætis þá var vöggustofa Thorvaldsensfélagsins starfrækt til ársins 1973 en var þá breytt í upptökuheimili fyrir 23 börn, frá 3 mánaða til 12 ára aldurs. Fyrir liggur að á upptökuheimilinu var vöggustofa sem rekin var til ársins 1979. Hún var rekin af og á ábyrgð Reykjavíkurborgar rétt eins og vöggustofan að Hlíðarenda og vöggustofa Thorvaldsenfélagsins. Um þetta er fjallað í opnu bréfi til borgaryfirvalda frá hópnum Réttlæti, dagsett 15. mars 2022.

    Fylgigögn

  11. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3267/2021. MSS22080149

    Fylgigögn

  12. Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað borgarlögmanns, dags. 9. október 2023, um málaferli Reykjavíkurborgar. MSS23010233

  13. Afgreiðsla undir þessum lið er færð í trúnaðarbók. MSS23100031

  14. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 10. október 2023, þar sem erindisbréf hússtjórnar Ráðhúss Reykjavíkur er sent borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. MSS23050062

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 10. október 2023, varðandi erindisbréf matsnefndar vegna veitingar stofnframlaga, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS23100007

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 10. október 2023, varðandi fyrirhugaða ferð borgarstjóra til Washington D.C. dagana 18.-20. október nk., ásamt fylgiskjölum. MSS23100057

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. október 2023, varðandi breytt fundadagatal borgarráðs fyrir árið 2023, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt. MSS22060038

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar SORPU bs., dags. 6. október 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um greiðslur SORPU bs. til Terra, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. september 2023. MSS23090047

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Verið er að svara fyrirspurn um hvað SORPA hefur greitt fyrirtækinu Terra háar fjárhæðir síðastliðið ár vegna sorphirðu og hvað hefur verið greitt til Kubbs ehf. og Íslenska gámafélagsins síðastliðið ár. Í svari má sjá að þetta eru umtalsverðar upphæðir eða samtals tæpar 600 milljónir án virðisaukaskatts. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort hægt sé að fara kostnaðarminni leiðir og hvort útboð á þessu öllu sé besta leiðin. Um er að ræða tæmingu á grenndargámum, akstur á gámum milli starfsstöðva og fleiri skyld verkefni. 

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 12. október 2023, vegna kvennaverkfalls 24. október nk. MSS23100071

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 5. október 2023. MSS23010026

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 5. október 2023. MSS23010005

    Fylgigögn

  22. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 4. október 2023. MSS23010028

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar: 

    Kynntur er Vetrargarður og íbúaráð leggur fram sameiginlega bókun þar sem segir að Vetrargarðurinn sé „lýðheilsuverkefni fyrir útilífsborgina, dregur að sér fjölskyldur, börn og ungmenni og verður spennandi að sjá garðinn dafna þegar fram í sækir“. Fulltrúi Flokks fólksins setur stórt spurningarmerki við þá fullyrðingu að hér sé um að ræða lýðheilsuverkefni. Byggja á leiksvæði barna, Vetrargarðinn, á horni tveggja stofnbrauta með samtals 11 akreinar. Fyrirhugaður Vetrargarður á að rísa nánast ofan í hraðbrautina. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að mengun frá Arnarnesvegi muni leggjast yfir Vetrargarðinn á gráum dögum og umferðarniður verður varla umflúinn. Margsinnis var farið fram á nýtt umhverfismat þar sem aðgerðin er byggð á eldgömlu umhverfismati. Lýðheilsa íbúa er hér einmitt lögð að veði.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 2. október 2023. MSS23010030

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 25. september 2023. MSS23010018

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. október 2023.
    12. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 18. og 19. lið fundargerðarinnar: 

    18. liður: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vistlokin. Það var því miður ljóst frá byrjun að það að teikna vistlok yfir veginn til að fegra deiliskipulagið var í raun ekkert annað en yfirvöld að slá ryki í augu íbúa. Ósannindi á ekki að líða. Þeim var ljóst frá byrjun að ekkert fjármagn var til fyrir þessi vistlok og þau því eitthvað sem verður aldrei framkvæmt. Sérstaklega í ljósi þess að kostnaðurinn við að gera þau síðar er örugglega margfalt hærri en að gera þau samhliða vegagerðinni. Ekki var tekið neitt mark á umsögnum íbúa varðandi lagningu 3. kafla Arnarnesvegar og sannar í enn eitt skiptið að samráðsferlið við íbúa er ekkert annað en sýndarlýðræði. 19. liður: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lengd 3. áfanga Arnarnesvegar. Fram kemur í svari að ekki er ljóst hvaðan upplýsingar um að kaflinn sé 1,3 km langur eru upprunnar en sé leitað á netinu sést að sú tala kemur fyrir á nokkrum stöðum. Þetta er athyglisvert og veltir fulltrúi Flokks fólksins því upp hverjir hafa mögulega haft hagsmuni af því að vegurinn sé sagður 1,3 km.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 14 mál. MSS23100001

    Fylgigögn

  27. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23100002

    Fylgigögn

  28. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir gögnum um fjölda þeirra barna sem nota frístundastyrki Reykjavíkur. Einnig komi fram fjöldi barna eftir kyni, búsetu, uppruna, félagslegri stöðu og öðrum gögnum sem borgin hefur. MSS23100084

    Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. 

  29. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvernig er eftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur háttað með salernum í Mathöllinni á Hlemmi hvað varðar hreinlæti og þrif? Fulltrúa Flokks fólksins hafa borist ábendingar um að ofangreindum þáttum sé ábótavant en um er að ræða salerni sem notuð eru bæði af gestum Mathallarinnar og einnig þeim sem leið eiga fram hjá. Rennsli í gegnum salernið getur verið tugir á klukkutíma. MSS23100085

    Vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. 

Fundi slitið kl. 10:55

Einar Þorsteinsson Dóra Björt Guðjónsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Hildur Björnsdóttir

Pawel Bartoszek Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 12.10.2023 - Prentvæn útgáfa