Skólamál og innviðauppbygging ofarlega í huga íbúa í Hlíðum og Laugardal
Áhugaverðar umræður voru í dag á íbúafundum borgarstjóra í Hlíðum og Laugardal þar sem meðal annars var rætt um skólamál, innviðauppbyggingu, umferðaröryggi og það sem mikilvægt er að hlúa að til framtíðar í hverfunum.
Ánægja með staðsetningu, almenningssamgöngur og góða skóla í Hlíðunum
Íbúafundur í Hlíðahverfi var haldinn í Hlíðaskóla klukkan 11 á þessum fallega laugardegi í Reykjavík.
Þetta var sjötti fundurinn sem Einar Þorsteinsson borgarstjóri heldur í hverfum borgarinnar og eins og á fyrri fundum hófst fundurinn á samtali um hvað íbúar kunna best að best að meta við hverfið sitt.
Borgarstjóri sagðist vilja byrja á umræðum um það góða í hverfinu til að fá vísbendingar um það sem mikilvægt er að hlúa að og jafnvel fá hugmyndir um það sem önnur hverfi geta lært af. Íbúar Hlíðahverfis nefndu meðal annars góða skóla, auðvelt aðgengi að náttúru og almenningssamgöngum, fjölbreytta þjónusta og fínir tengistígar innan hverfsins.
Klambratún og Vörðuskóli
Einn ungur íbúi óskaði sérstaklega eftir fleiri ísbúðum og fótboltavöllum, og annar íbúi lagði til að í stað þess að vera með þjónustumiðstöð á Klambratúni yrði húsnæði borgarinnar nýtt fyrir nýjan leikskóla. Nokkrir íbúar töluðu um hugmyndir um að gera Vörðuskóla í miðborginni að safnskóla fyrir unglinga og höfðu áhyggjur af því að unglingarnir færu í skóla utan hverfis. Aðrir vildu að hámarkshraði yrði lækkaður á Flókagötu og fleiri götum í hverfinu og fá Miklubraut í stokk. Fleiri rafhleðslustöðvar voru einnig til umræðu sem og bætt lýsing á Klambratúni.
Mörg mál sem brenna á íbúum í Laugardal
Fundurinn í Laugardalshverfi var haldinn í Vogaskóla klukkan 14 og var sérlega vel sóttur. Meðal þess sem íbúar nefndu oftast þegar kemur að því besta í hverfinu kemur kannski ekki á óvart en það var Laugardalurinn sjálfur, grænu svæðin og Laugardalslaugin. Mörg nefndu einnig hverfisbraginn, góða skóla, gróðursæld og hversu stutt er í alla þjónustu. Þá fékk Sólheimasafn mikið hrós fyrir frábært starf. Foreldrar nefndu einnig mjög gott skóla- íþrótta og félagsstarf og nauðsyn þess að hlúa vel að því starfi með viðunandi húsnæði og aðstöðu.
„Eitt besta 15-mínútna hverfið í borginni,” sagði einn íbúi og hvatti borgaryfirvöld til að passa vel upp á Laugardalinn, “lungun í hvefinu.”
Húsnæði skóla í hverfinu til umræðu
Húsnæðismál skóla í hverfinu voru mikið til umræðu en einnig var rætt um betri lýsingu á gönguleiðum, umferðarþunga í hverfinu og bætta æfingaaðstöðu fyrir íþróttir barna. Þá var rætt um það sem einn íbúi kallaði skort á almennilegri innviðauppbyggingu í tengslum við þéttingu byggðar í hverfinu svo sem nýja Vogahverfi og uppbyggingu í Skeifunni.
Flest sem tóku til máls höfðu þó eitthvað til máls að leggja um aðstöðu fyrir börn og starfsfólk í grunn- og leikskólum og félagsmiðstöðvum hverfisins, bæði hvað varðar þrengsli í skólum og ástand húsnæðisins.
„Þetta er stærsti þáttur í lífi barnafjölskyldna,” sagði einn íbúi og sagðist vera langþreyttur á því að fá ekki skýr svör frá borgaryfirvöldum. Sigríður Heiða Bragadóttir sem hætti sem skólastjóri Laugarnesskóla á síðasta ári hvatti borgarstjóra til að taka þessi mál alvarlega og koma með áætlun um framkvæmdir sem allra fyrst. Snædís Valsdóttir skólastjóri Vogaskóla nefndi að slæmt ástand húsnæðis hefði bein neikvæð áhrif á möguleika til að ráða hæft starfsfólk í skólana.
Borgarstjóri sagðist heyra kröfur íbúa mjög skýrt, hann taki skólamálin í hverfinu mjög alvarlega og mun setja það í forgang að koma með svör til foreldra varðandi framgang þessara mála.
Sundabrautina bar einnig töluvert á góma í umræðum en fulltrúar Íbúasamtakanna lýstu áhyggjum af því að hún gæti farið í gegnum hverfið og óskuðu eftir mikið og gott samráð um skipulag brautarinnar.