Skógur og heilsa þemað á alþjóðlegum degi skóga

Kálfamói. Fyrstu trén voru gróðursett 1947, þegar Jóhann Pálsson, sem seinna varð garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, notaði orlofsfé sitt til að kaupa þrjár sitkagreniplöntur. Mynd/Skógræktarfélag Reykjavíkur
Mynd af skógi. Tré og gras.

Alþjóðlegur dagur skóga er á morgun, þriðjudag. Það eru Sameinuðu þjóðirnar sem útnefna 21. mars sem alþjóðadag skóga. Yfirskriftin er ólík á milli ára en hún tekur að þessu sinni mið af þriðja heimsmarkmiðinu, sem er „Heilsa og vellíðan“. Af þessu tilefni stendur Skógræktarfélag Reykjavíkur fyrir göngu á Keldum og Grasagarður Reykjavíkur, í samvinnu við Skógræktarfélag Íslands, býður upp á  skógarjóga í Grasagarðinum.

Fræðsluganga um Kálfamóa við Keldur

Skógræktarfélag Reykjavíkur býður til fræðslugöngu um Kálfamóa við Keldur í Grafarvogi, þriðjudaginn 21. mars kl. 18. Hist verður á bílastæðinu við aðalinngang.

Fyrstu trén voru gróðursett 1947, þegar Jóhann Pálsson, sem seinna varð garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, notaði orlofsfé sitt til að kaupa þrjár sitkagreniplöntur. Hann var þá aðeins 15 ára en átti eftir að sinna svæðinu vel næstu áratugi. Í gegnum tíðina bætti hann við mörgum tegundum bæði trjáa, runna og annarra plantna svo úr varð fjölskrúðugt svæði. Jóhann lést 3. mars síðstliðinn.

Nú er verið að undirbúa nýtt og vel tengt íbúahverfi í landi Keldna. Við fyrirhugaða uppbyggingu er lögð áhersla á að nýta og taka mið af náttúrugæðum svæðisins. Mikil auðlind er fólgin í Kálfamóa fyrir íbúa komandi hverfis enda eru jákvæð áhrif grænna svæða á lýðheilsu ótvíræð.

Skógarjóga í Grasagarðinum

Skógræktarfélag Íslands og Grasagarður Reykjavíkur bjóða einnig gestum og gangandi í skógarjóga í fallegum lundi í Grasagarðinum þennan dag kl. 18 undir leiðsögn Ragnheiðar Ýrar Grétarsdóttur jógakennara.

Að skógarjóganu loknu verður boðið upp á te í garðskála Grasagarðsins.

Mæting er við aðalinngang Grasagarðsins kl. 18. Þátttaka er ókeypis og öll velkomin.

Heilsueflandi samfélag

Heilsueflandi samfélag og heilbrigt umhverfi er lykilþáttur í stefnu Reykjavíkurborgar. Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Rannsóknir ýta stoðum undir það að öflugur trjágróður í þéttbýli og allt lífríkið sem honum fylgir auki vellíðan og heilsu íbúa.

Kostir grænna svæða eru vel skjalfestir og hefur verið sýnt fram á að aðgengi að grænum svæðum bæti velferð fólks. Talið er að fólk sem býr í miklum íbúaþéttleika sé líklegra til að upplifa streitu, kvíða og geðræna kvilla. Aðgengi að skógrækt hefur aftur á móti jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu og stuðlar það að bættri hamingju og vellíðan.