Skipulagslýsing fyrir Norður - Mjódd

Skipulagsmál

Norður Mjódd

Skipulagslýsing var lögð fram, á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í júnílok 2023, vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi Norður - Mjóddar fyrir lóðirnar Stekkjarbakka 4-6 og Álfabakka 7.

Samþykkt var á fundi ráðsins að kynna lýsinguna fyrir almenningi ásamt því að leita umsagnar helstu hagsmunaaðila. Gert er ráð fyrir blandaðri byggð eftir þær breytingar sem verða á deiliskipulaginu. Íbúðum, matvöruverslun, atvinnustarfsemi, dvalarsvæðum og samgönguinnviðum verður komið fyrir á lóðunum. Ekki er um stækkun lóða að ræða en lóðarmörk geta breyst.

Núverandi landnotkun á lóðunum Stekkjarbakka 4-6 og Álfabakka 7 mun taka breytingum í samræri við stefnu Aðalskipulags Reykjavíkur 2040. Svæðið er nú skilgreint sem miðsvæði og verður landnotkunin blandaðri heldur en áður. Gert er ráð fyrir að borgarlína muni liggja í nálægð við lóðirnar í Norður Mjódd.

Skipulagslýsingin er um leið yfirlit yfir helstu áherslur og forsendur deiliskipulagsbreytingarinnar, í samræmi við aðrar skipulagsáætlanir. Lýsingin tryggir að almenningur og hagsmunaaðilar komi að skipulagsferlinu á fyrstu stigum. Lýsingin er unnin í samræmi við skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Lóðarhafi og skipulagsráðgjafi munu vinna breytingartillögu fyrir reitinn í náinni samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar.

Óskað er eftir að ábendingar/umsagnir berist eigi síðar en 18. ágúst 2023 í gegnum Skipulagsgáttina. Lýsingin er aðgengileg á vefnum Skipulagsgátt og má sjá hana hér ásamt gögnum: