No translated content text
Skipulagslýsing á breyttu deiliskipulagi fyrir Geirsnef var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í vikunni. Markmiðið er að styrkja svæðið sem fjölbreytt útivistarsvæði.
Með þéttingu íbúabyggðar bæði í Vogabyggð og við Ártúnshöfða verður Geirsnef sífellt mikilvægara útivistarvæði fyrir íbúa. Í rammaskipulagi fyrir Ártúnshöfða er lagt til að Geirsnef verði gert að borgargarði, útivistarsvæði með náttúrulegu yfirbragði.
Helstu viðfangsefni og markmið
- Skipuleggja svæðið sem borgargarð, útivistarsvæði með náttúrulegu yfirbragði
- Bæta nýtingu svæðisins með gróðursetningu, landmótun og skjólmyndun
- Skoða möguleika á íþróttaafþreyingu á svæðinu
- Skilgreina gönguleiðir um svæðið
- Afmarka lausagöngu-/æfingarsvæði fyrir hunda.
- Koma fyrir Borgarlínu yfir nefið og norður-suður undir Vesturlandsveg ásamt göngu- og hjólastíg.
Leitað verður umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands, Borgarsögusafni, hverfisráði og íbúasamtökum í aðliggjandi borgarhlutum, Veitum ohf., Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, Vegagerðinni, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Veiðifélagi Elliðavatns, Stangveiðifélagi Reykjavíkur, Íþróttafélaginu Þrótti, Dýraþjónustu Reykjavíkur og Félagi ábyrgra hundaeigenda.
Skipulagsgögnin verða gerð aðgengileg inni á Skipulagsgáttinni frá 14. nóvember og þá getur almenningur sem og hagaðilar kynnt sér málið betur og komið með athugasemdir.