Skapaðu þitt eigið rými með borgarboxinu

Umhverfi

""

Nýjasta viðbótin við borgarrými miðborgarinnar er borgarboxið sem er fjölnota setaðstaða sem leynir á sér. Með borgarboxinu skapa notendur sitt eigið rými en allt að átta einstaklingar geta setið saman. Hægt er að raða stólunum upp á ýmsa vegu sem gerir það einfalt að virða tveggja metra regluna. Mismunandi uppstillingar geta hentað fólki sem vill sitja saman eða í sitthvoru lagi. 

Borgarhönnuðir Reykjavíkurborgar hönnuðu borgarboxið er það því sérstaklega sniðið að þörfum gesta miðborgarinnar. Þessi útihúsgögn eru íslensk hönnun og framleiðsla rétt eins og tröppuborðin sem nýlega voru sett upp í Bernhöftstorfunni.

Borgarboxið verður að finna á nokkrum svæðum í miðborginni, meðal annars við Hörpu og á Boðatorgi en uppsetning stendur yfir.