Síðbúinn Skrekkur brestur á

Skóli og frístund

""

Loksins er komið að því! Hæfileikakeppnin Skrekkur 2020, sem fresta þurfti þrisvar sinnum á liðnu ári vegna samkomutakmarkana, hrekkur í gang í kvöld.

Átján grunnskólar í borginni taka þátt að þessu sinni og keppa til úrslita í Borgarleikhúsinu 1. 2. og 3. mars. Keppnin, sem nú er haldin í 30. sinn, verður án áhorfenda, en beint streymi verður frá undanúrslitunum á ungruv.is kl. 20.00 og úrslitakvöldið þann 15. mars verður í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV.

Í kvöld keppa Austurbæjarskóli, Norðlingaskóli, Réttarholtsskóli, Seljaskóli, Breiðholtsskóli og Ingunnarskóli. Dómnefnd velur þá tvo skóla sem keppa á úrslitakvöldinu 15. mars.

Unglingar í 8. 9. og 10. bekk taka þátt í Skrekk og spreyta sig á öllu sem snýr að sviðslistum; handrits- og textasmíði, leik, söng, dansi, lýsingu, hljóðmynd, sminki og búningahönnun. Viðfangsefni í þeim atriðum sem keppa til úrslita eru margvísleg og unnin af miklum metnaði. Þau fjalla meðal annars um sjálfsmyndarvanda, kynhneigð, flóttamenn, félagsþrýsting, fjöltyngi, einhverfu og meira að segja heimsfaraldur. 

Æfingaferlið hefur ekki verið þrautalaust fyrir unglingahópana sem stíga á svið næstu kvöld í Borgarleikhúsinu. Þeir hafa hist á fjarfundum, æft sig með grímur og sum handrit hafa tekið kúvendingum á löngum undirbúningstíma. En nú er komið að því -  ljósin munu skína á átján Skrekks-atriði og allir geta fylgst með frjórri unglingamenningu springa út.    

Meira um Skrekk

Skrekkur er líka á Facebook