Sextán grunn- og leikskólalóðir endurgerðar eða lagfærðar

Umhverfi Skóli og frístund

""

Alls verða sextán lóðir við leik- og grunnskóla Reykjavíkurborgar ýmist endurgerðar eða lagfærðar í ár fyrir samtals 500 milljónir. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í maí og að þeim ljúki í ágúst.

Sex grunn- og leikskólalóðir verða endurgerðar. Skólarnir sem um ræðir eru grunnskólarnir Ártúnsskóli, Brúarskóli og Rimaskóli og leikskólarnir Furuskógur-Furuborg, Garðaborg og Ægisborg.

Lóðirnar eru endurgerðar í áföngum

Leikskólalóðir:

· Furuskógur - Furuborg (1. áfangi af tveimur)

· Garðaborg (1. áfangi af tveimur)

· Ægisborg (2. áfangi af tveimur)

Grunnskólalóðir:

· Ártúnsskóli (2. áfangi af tveimur)

· Brúarskóli (2. áfangi af þremur)

· Rimaskóli (2. áfangi af tveimur)

Hætt að nota öryggismöl sem fallvörn

Enn fremur verða gerðar ýmsar lagfæringar á tíu leikskólalóðum til viðbótar en þær eru við Engjaborg, Fífuborg, Geislabaug, Hólaborg, Klettaborg, Langholt-Sunnuborg, Litla-Holt, Lyngheima, Nes-Hamra og Sólborg. Á þessum lóðum verða leiktæki endurnýjuð á hluta leiksvæða og öryggismöl skipt út með nýju fallvarnarefni og/eða gervigrasi. Það er stefna borgarinnar að hætta notkun öryggismalar sem fallvörn á leiksvæðum.

Nýir boltavellir við Vesturbæjarskóla

Til viðbótar við þetta koma nýir boltavellir og leiksvæði við Vesturbæjarskóla í sumar en þar verður framkvæmt fyrir 90 milljónir króna. Greint var frá fyrirhuguðum framkvæmdum við skólann á vef Reykjavíkurborgar fyrr í mánuðinum.