Setning Listahátíðar í Reykjavík

Borgin okkar

Frá setningu Listahátíðar í Reykjavík 2024

Mikið var um dýrðir í miðborginni í dag þegar Listahátíð í Reykjavík var sett.

Formleg setning Listahátíðar í Reykjavík fór fram í porti Hafnarhúss Listasafns Reykjavíkur kl. 14:00. Að lokinni setningu var opnuð einkasýning Jónsa, Flóð, þar sem gestum býðst að ganga inn í alltumlykjandi hljóð-, ljós- og lyktarinnsetningar. Flóð er fyrsta einkasýning þessa magnaða listamanns í Evrópu.

Danshópur við opnun Listahátíðar í Reykjavík 2024

Íslenski dansflokkurinn og dansarar úr street dance-senunni sýndu brot úr verki Hoomans Sharifi, While in battle I’m free, never free to rest. Verkið verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu 7. júní. Einnig var flutt brot úr Dúettum, dansverki Ásrúnar Magnúsdóttur sem sýnt verður í Borgarleikhúsinu 9. júní.

Við Iðnó var geggjuð hátíðarstemning þar sem hljómsveitin Hnokkar spiluðu fyrir gesti og gangandi og lá leiðin yfir í Hafnarhús og svo endaði förin á Miðbakka. Þar birtust Sæskrímslin en um er að ræða risastórt íslenskt götuleikhús fyrir alla fjölskylduna úr smiðju Hringleiks og Pilkington Props.

Í Hörpu var svo heimsfrumflutningur á Metaxis, verki Önnu Þorvaldsdóttur 16:00 og kl. 17:00. Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur undir stjórn Evu Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóra.

Listahátíð er vettvangur fyrir listsköpun í hæsta gæðaflokki frá öllum heimshornum en á líka í kröftugu og lifandi sambandi við almenning í landinu og leitast við að tendra áhuga sem flestra til að taka þátt og njóta lista á eigin forsendum. Listahátíð í Reykjavík fer fram dagana 1.- 16. júní 2024.

Á dagskránni í ár er frábært úrval listviðburða af ýmsum toga. Heildardagskrá má sjá hér og miðasala er nú hafin á alla viðburði auk þess sem fjöldi ókeypis viðburða er í boði.