Söfnun lífræns eldhúsúrgangs á Kjalarnesi gengur vel

Umhverfi

""

Tilraunaverkefni um sérsöfnun lífræns eldhúsúrgangs stendur nú yfir á Kjalarnesi. Verkefnið hófst í nóvember síðastliðnum og nær til tæplega 170 heimila í Grundarhverfi. Árangurinn hefur verið góður í þau fimm skipti sem safnað hefur verið.

Strax í byrjun verkefnisins var hlutfallið af lífrænum úrgangi sem safnaðist rúmlega 20%. Það fór hæst í 48% í lok janúar og var 30% í síðustu söfnun.

Safnað er í tvískiptar tunnur þar sem annar hlutinn er fyrir lífrænan eldhúsúrgang og hinn fyrir blandaðan úrgang. Ávinningurinn er mikill en til samanburðar er lífrænn eldhúsúrgangur 45-50% af því sem hent er í hefðbundnar gráar tunnur.

94% rétt flokkað

Búið er að senda lífrænan úrgang í greiningu til að kanna hvort rétt sé flokkað í hólfin. Niðurstöðurnar sýndu fram á gæði lífræna úrgangsins en rúmlega 94% var rétt flokkað. Hin 6% voru aðallega plast, eða tæp 3%. Þarna gætu plastpokar hafa slæðst með en plast á ekki heima í jarðgerð.

Um 2% var pappír, sem getur til dæmis verið eldhúspappír eða servíettur. Eldhúspappír er í lagi í litlu magni en meginreglan er að litaðar servíettur eru ekki æskilegar í jarðgerðina.

Annað var í örlitlu magni eða um 1% en þar var um að ræða til dæmis málma, steinefni og skilagjaldsskyldar umbúðir.

Fleiri sýni verða tekin seinna í vetur til að sjá hvernig gæði lífræna úrgangsins þróast.

Útkoman er metan og jarðvegsbætir

Jarðgerð lífræna úrgangsins er hjá Íslenska Gámafélaginu í Gufunesi fyrst um sinn þangað til ný gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi verður tekin í notkun. Afurðir nýju stöðvarinnar verða metan og jarðvegsbætir.

Hvers vegna ætlum við hætta að urða lífrænan úrgang og endurvinna hann frekar?

• Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá urðun.

• Nýta orku og næringarefni í eldhúsúrgangi.

• Flokkun og skil til endurvinnslu hvetur til aukinnar meðvitundar um úrgang og getur leitt til breyttrar neysluhegðunar.

• Til að uppfylla markmið ríkis og sveitarfélaga um að hætta urðun lífræns úrgangs og mæta kröfu um aukið endurvinnsluhlutfall.

Verkefnið á Kjalarnesi verður notað sem undirbúningur fyrir frekari innleiðingu á söfnun lífræns eldhúsúrgangs í Reykjavík. Í viðhorfskönnun frá 2018 töldu 78% íbúa mjög líklegt eða líklegt þeir myndu nýta sér tunnu undir lífrænan úrgang við heimili.