Seljaskóli og Ölduselsskóli áfram í úrslit Skrekks
Þriðja og síðasta undanúrslitakvöld Skrekks 2024 fór fram í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi, þann 6. nóvember. 245 ungmenni í Reykjavík tóku þátt í atriðum kvöldsins þar sem þau sýndu frumsamin sviðsverk og fjölbreyttir hæfileikar þeirra komu fram.
Óhætt er að segja að Seljahverfi í Reykjavík hafi fengið fullt hús því í úrslit komust Seljaskóli með atriðið Byrðar á baki hverju sem fjallar um álag á ungt fólk í samfélaginu og Ölduselsskóli með atriðið Skólastofan sem fjallar um mistök og vandræðaleg atvik í skólanum.
Átta grunnskólar tóku þátt í kvöld en það voru Háteigsskóli, Klettaskóli, Langholtsskóli, Réttarholtsskóli, Rimaskóli, Seljaskóli, Sæmundarskóli og Ölduselsskóli.
Í heildina er 721 þátttakandi í Skrekk í ár. Öll atriðin má sjá á vef UngRUV.is.
Myndir tók Anton Bjarni.