Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar samþykkti í dag að halda áfram vinnu við þróun og byggingu safnskóla á unglingastigi í Laugardal. Áætlað er að hann muni rísa á svokölluðum „þríhyrningi“ á milli Skautahallarinnar og félagsheimilis Þróttar og Ármanns. Ennfremur var ákveðið að halda aldurshópum í Laugarhverfi saman eins og óskað var eftir í samráðsferli.
Áætlað að starfsemi skólans hefjist 2030
Safnskólinn verður fyrir unglinga í 8. – 10. bekk af skólasvæði Langholtsskóla, Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla. Á þessu stigi er einnig gert ráð fyrir að unglingar sem búa á nærliggjandi uppbyggingarreitum, við Grensásveg, á Orkureitnum og í Skeifunni, muni stunda nám í skólanum. Það verður þó skoðað nánar í sambandi við þróun íbúafjölda á uppbyggingarsvæðunum.
Grunnskólarnir þrír sem fyrir eru í hverfinu munu allir vera skólar fyrir yngri árganga: Langholtsskóli fyrir nemendur í 1.–7. bekk, Laugarnesskóli fyrir nemendur í 1.–4. bekk og Laugalækjarskóli fyrir nemendur í 5.–7. bekk. Bekkjaskiptingin í Laugarnes- og Laugalækjarskóla er útkoma yfirferðar umsagna þar sem fram kom vilji til að halda aldurshópum í Laugarhverfi saman í stað þess að búa til tvo skóla fyrir börn í 1.-7. bekk.
Skólaþorp mun rísa
Næstu skref lúta að því að koma upp tímabundnu skólaþorpi á syðsta hluta bílastæðisins við KSÍ sem er í undirbúningi og stefnt að því að fyrsti hluti verði tilbúinn haustið 2025. Fyrst um sinn munu börn úr Laugarnesskóla stunda nám í skólaþorpinu svo hægt verði að fara í nauðsynlegar og umfangsmiklar framkvæmdir á skólabyggingum.
Áætlanir gera ráð fyrir því að safnskólinn verði tekinn í notkun árið 2030 og skólastarf fram að því verði að mestu leyti með óbreyttu sniði. Nokkru áður en nýi skólinn opnar verður blásið til samráðs með starfsfólki um skólastarf í nýjum skóla og breytingar á skólastarfi skólanna þriggja.
Frekari upplýsingar er að finna á síðu um framtíðaráform í Laugardal.