Borgarráð samþykkti í dag samstarfssamning við nýja miðborgarfélagið Miðborgin Reykjavík- félagasamtök og mun Reykjavíkurborg styrkja félagið árlega um tíu milljónir króna á árunum 2024-2026. Tilgangur félagsins er að kynna miðborgina sem spennandi og skemmtilegan áfangastað.
Miðborgin Reykjavík- markaðsfélag var stofnað formlega af rekstraraðilum í miðborginni í maímánuði þessa árs, 2023, en undirbúningur hafði staðið yfir í nokkurn tíma. Félagið stuðlar að því að miðborgin sé áhugaverður og aðlaðandi dvalar- og áfangastaður fyrir íbúa og aðra hagsmunaaðila borgarinnar, landsmenn alla og erlenda gesti. Markmið er að efla verslun, þjónustu, mannlíf og menningu í miðborginni.
Unnið að sameiginlegum markmiðum
Samningurinn er gerður með fyrirvara um gildandi fjárhagsáætlun á samningstíma og er markmið hans að efla samstarf og upplýsingagjöf og vinna að sameiginlegum markmiðum. Einnig að vinna sameiginlega að ýmsum málefnum og viðhafa reglubundið samráð um málefni miðborgarinnar og helstu verkefni. Miðborgin Reykjavík fær tengilið hjá Reykjavíkurborg sem er félaginu innan handar en hann hefur einnig seturétt sem áheyrnarfulltrúi á stjórnarfundum Miðborgarinnar Reykjavíkur. Félagið fékk greiddan tíu milljóna króna styrk úr Miðborgarsjóði á þessu ári.