Borgarráð - Fundur nr. 5728

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 7. desember, var haldinn 5728. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:15. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Pawel Bartoszek, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Stefán Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. nóvember 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. nóvember 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Safamýrar – Álftamýrar vegna Safamýri 58-60, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23100313

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 5. desember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki lóðarvilyrði vegna uppbyggingar á umhverfisvænu húsnæði á lóðinni hafnarhverfi E Gufunesbryggja, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23110023

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 5. desember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili framlengingu lóðarvilyrðis vegna Gjúkabryggju 8.

    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23100037

    Fylgigögn

  4. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 5. desember 2023, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023. 

    Greinargerðir fylgja tillögunum.

    Vísað til borgarstjórnar.

    Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Anna Guðmunda Andrésdóttir og Jón Valgeir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23010016

    Fylgigögn

  5. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 5. desember 2023, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 vegna fjárfestingaráætlunar A-hluta. 

    Greinargerðir fylgja tillögunum.

    Vísað til borgarstjórnar.

    Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Anna Guðmunda Andrésdóttir og Jón Valgeir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23030049

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf borgarritara, dags. 5. desember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun úr Miðborgarsjóði fyrir árið 2023, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. MSS23110027

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga er lögð fram um úthlutun úr Miðborgarsjóði. Ákveðið teymi fer yfir umsóknir en alls bárust 37 umsóknir, 12 milljónum verður veitt úr sjóðnum í styrki. Markmiðið er að stuðla að fjölbreytni í miðborginni. Mörg þessara verkefna eru sannarlega áhugaverð. En hvað með önnur hverfi sem eru að reyna að viðhalda fjölbreytni og lífi í sínum hverfiskjörnum, t.d. Mjóddin? Eru sambærilegir sjóðir í gangi fyrir önnur hverfi?  Það heldur fulltrúi Flokks fólksins að ekki sé, allavega ekki í sama mæli. Miðborgin á ekki lengur undir högg að sækja eins og var. Hún er yfirfull af fólki og þá helst erlendum ferðamönnum. Fulltrúi Flokks fólksins er ekki með þessu að segja að honum þyki ekki vænt um miðbæinn. Miðborgin er okkar allra og gaman væri að sjá fleiri úr efri byggðum og utanbæjar koma í miðbæinn en fólk segist einfaldlega oft ekki treysta sér í bæinn. Ástæður þess verða ekki reifaðar í þessari bókun.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. desember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki samstarfssamning við nýja miðborgarfélagið Miðborgina Reykjavík – félagasamtök og styrki félagið árlega um 10 milljónir króna árin 2024-2026 með fyrirvara um gildandi fjárhagsáætlun á samningstíma. Kostnaður greiðist af kostnaðarstað 01296, miðborgarmál.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23110071

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fram kemur í bréfi borgarstjóra að með þessum samningi fær Miðborgin Reykjavík tengilið hjá Reykjavíkurborg sem er þeim innan handar og tryggir að gott samstarf sé um málefni miðborgarinnar. Þetta er hið besta mál. Einnig kemur fram að Miðborgin Reykjavík fékk greiddan 10 milljóna kr. styrk úr Miðborgarsjóði árið 2023. Í þessu sambandi finnst Flokki fólksins við hæfi að félagasamtökin komi inn í þann starfshóp sem vinnur að því að finna lausnir á hávaðavandamálum í miðborginni. Nú eru aftur farnar að berast kvartanir vegna hávaða frá útihátalara og skrílsláta. Íbúar miðborgar víða eiga erfitt með að sofa á nóttunni vegna hávaða. Mikilvægt er að hópurinn fari að hittast aftur og þá væri við hæfi að fulltrúi frá þessum félagasamtökum miðborgarinnar kæmi til liðs við hópinn.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. desember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samstarfssamningi Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands um Höfða friðarsetur fyrir árin 2023-2025. Samningurinn er til þriggja ára. Kostnaður samkvæmt samningnum er 10.800.000 kr. árið 2023, 11.500.000 kr. árið 2024 og 12.500.000 kr. árið 2025, samtals 34.800.000 kr. á samningstímanum sem færist á kostnaðarstað 09510 – ýmsar samningsbundnar greiðslur. Framlög Reykjavíkurborgar vegna áranna 2024 og 2025 eru með fyrirvara um samþykkt fjárhagsáætlana.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23110107

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. desember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki endurnýjun samkomulags á milli Reykjavíkurborgar, kt. 530269-7609, og Main Course ehf., kt. 470104-2520, fyrir árin 2024-2026. Samkvæmt samkomulaginu greiðir Reykjavíkurborg Main Course ehf. árlega kr. 2.500.000, samtals 7.500.000 kr. á samningstímanum, og verður kostnaðurinn greiddur af kostnaðarliðnum 09510 – ýmsar samningsbundnar greiðslur.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22020091

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. desember 2023, sbr. samþykkt innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 30. nóvember 2023 á tillögu að breytingu á viðmiðunarfjárhæðum innkaupareglna Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Theodór Kjartansson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Margrét Lilja Gunnarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23120001

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. desember 2023, þar sem drög að samkomulagi Reykjavíkurborgar og Hestamannafélagsins Fáks um Landsmót hestamanna í Víðidal 2024 ásamt kostnaðaráætlun er lagt fram til kynningar.

    Eiríkur Björn Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MIR23100011

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. nóvember 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 27. nóvember 2023, á tímabundnum flutningi leikskólans Grandaborgar, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23110085

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. nóvember 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 27. nóvember 2023 á tillögu um tímabundinn flutning á starfsemi leikskólans Árborgar, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23110086

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. nóvember 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 27. nóvember 2023, á tillögu um tímabundinn flutning leikskólans Garðaborgar, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23110087

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. nóvember 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 27. nóvember 2023, á tillögu um tímabundinn flutning leikskólans Hálsaskógs, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23110084

    Fylgigögn

  16. Lögð fram tillaga formanns borgarráðs, dags. 4. desember 2023, að fundadagatali borgarráðs 2024, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. MSS22060038

  17. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 4. desember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki reglur um styrkveitingar borgarráðs, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. MSS23120014

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 4. desember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð tilnefni þrjá fulltrúa í styrkjahóp ráðsins.

    Samþykkt að skipa Einar Þorsteinsson, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og Friðjón R. Friðjónsson í hópinn. MSS23120008

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 4. desember 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tilbúnar lóðir fyrir einbýlishús, raðhús og fjölbýlishús, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. júní 2023. MSS23060097

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 5. desember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda byggingarhæfra lóða, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. nóvember 2023. MSS23110141

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um byggingarhæfar lóðir og hvort lóðarhöfum/verktökum séu sett einhver skilyrði um hvenær uppbyggingu skuli lokið á lóðinni. Í svari segir að á kortasjá borgarinnar er að finna 47 lóðir þar sem heimilt er að byggja allt að 2.708 íbúðir á lóðum sem teljast byggingarhæfar. Af þeim lóðum er Nauthólsvegur 79 eina lóðin sem bjóða á á föstu verði. Um skilyrðin segir að a) Aðaluppdrættir húss og lóðar skulu hafa borist skipulagsráði til samþykktar eigi síðar en tveimur árum og fimm mánuðum eftir B-dag. Undirstöður og plata skulu steypt eigi síðar en þremur árum eftir B-dag og eigi síðar en fjórum árum eftir B-dag skal lóðarhafi hafa gert hús fokhelt. Sé gert ráð fyrir að B-dagur sé sá dagur sem einhver hreppir lóðina þá eru 5-6 ár ríflegur tími fyrir þann sem byggir að koma íbúðunum í sölu að mati fulltrúa Flokks fólksins. Búast má við að sá aðili geti nýtt sér þennan tíma til að spila á markaðinn með það í huga að hagnast sem mest, því að íbúðaverð sveiflast upp og niður og ráða ákvarðanir verktaka þar miklu og þeir geta stýrt framboðinu. Ef tíminn væri styttri drægi úr þeirri hættu.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 5. desember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um rýmingaráætlun fyrir miðbæ Reykjavíkur, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. nóvember 2023. MSS23110011

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Spurt var um hvort rýmingaráætlun úr miðbæ Reykjavíkur sé til, ef tæma þyrfti svæðið skyndilega af einhverjum orsökum. Á Kvennaverkfallsdaginn var slíkt mannhaf samankomið á Arnarhól og næsta umhverfi að fulltrúa Flokks fólksins var hugsað til þess hvernig myndi ganga að rýma svæðið hratt og örugglega ef þess þyrfti vegna t.d. aðsteðjandi ógnar eða alvarlegrar uppákomu sem skaðað gæti fjölda manns. Til dæmis ef upp kæmi panikástand og fólk færi að hlaupa, þá er hætta á að einhver myndi troðast undir. Fram kemur að til er rýmingaráætlun fyrir miðbæ Reykjavíkur en það svæði er líklega það svæði þar sem helst er þörf á slíkri áætlun en þar safnast oft mikill mannfjöldi saman. Það hlýtur að vera æskilegt að áætlun sem þessi sé aðgengileg svo sem flestir geti kynnt sér hana. Mun líklegra er að rýma þurfi svæðið af mannavöldum en náttúruhamförum. Sennilega er ekki hægt að fyrirbyggja með neinum öruggum hætti að slys gætu orðið ef panikástand kæmi upp og þúsundir manna tækju til fótanna. Þá er hætta á að einhver gæti troðist undir. Þetta eru aðstæður sem hræða einna mest þegar fjöldi manns er saman kominn í miðbænum.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 4. desember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skýrslu um Laugarnesskóla, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. október 2023. MSS23020033

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um skýrslu starfshópsins um greiningu á stöðu Laugarnesskóla en starfshópurinn átti að skila af sér í maí en því var frestað og svo hefur ekkert frést frekar. Spurt var hver væri staðan á þessari skýrslu. Af hverju hefur henni seinkað? Hvenær verður hún opinber? Í svari kemur fátt fram nema það að seinkun hefur orðið á tillögum og að verkefnið hafi reynst umfangsmeira en áætlað var og starfshópurinn fékk því frest til þess að skila af sér. Segir síðan að starfshópurinn skilaði drögum að skýrslu til ábyrgðarmanns 26. nóvember sl. og verður hún lögð fyrir borgarráð þegar frekari forsendum sem samþykktar voru í borgarráði hefur verið mætt. Fulltrúi Flokks fólksins veit ekki um hvaða forsendur verið er að tala og leggur fram frekari fyrirspurnir um málið. Nefna má að margir aðilar, foreldrar og kennarar, bíða eftir þessum tillögum og finnst að þeir séu látnir bíða út í kuldanum. Betra væri að aðilar fengju upplýsingar. Að fá ekkert að vita er ekki góð staða né tilfinning.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 5. desember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við skýrslu Ríkisendurskoðunar um Sinfóníuhljómsveit Íslands, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. september 2023. MSS23090124

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um hvernig Reykjavíkurborg hyggst bregðast við niðurstöðum skýrslu Ríkisendurskoðunar um Sinfóníuhljómsveit Íslands þegar kemur að kvörtunum um einelti og ofbeldi. Reykjavíkurborg er einn af rekstraraðilum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, með 18% hlut. Í stuttu máli segir svarið að Reykjavíkurborg muni ekki bregðast formlega við niðurstöðum skýrslunnar vegna þess að eigandastefna Reykjavíkurborgar nær ekki til Sinfóníuhljómsveitarinnar þar sem um sjálfstæða stofnun er að ræða sem heyrir undir menningar- og viðskiptaráðuneytið. Eftir lestur svarsins finnst fulltrúa Flokks fólksins Sinfóníuhljómsveit Íslands vera hálf umkomulaus þegar kemur að því að fá aðstoð með erfið mál eins og samskiptamál geta oft verið. Ekkert er vitað hvort menningar- og viðskiptaráðuneytið muni sinna þessu hlutverki og hjálpa til að leiða mál til lykta.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 27. nóvember 2023. MSS23010022

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 30. nóvember 2023. MSS23010005

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 28. nóvember 2023. MSS23010031

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið en spurt var hvort íbúaráðið hafi heyrt í íbúum og afstöðu þeirra til tveggja tillagna íbúðaráðsins, þá fyrri um mótun framtíðarsýnar um þróun Háaleitisbrautar og þá síðari um lækkun hámarkshraða á Suðurlandsbraut. Svar íbúðaráðsins við spurningunum er nei, að ekki hafi verið leitað sérstaklega álits hjá íbúum. Bent er á að í „íbúaráðinu sitja fulltrúar grasrótar s.s. íbúasamtaka og foreldrafélaga.“ Flestir íbúaráðsfulltrúar eru auk þess íbúar í hverfinu eins og segir í svari. Fleira er tiltekið í svari sem rennir stoðum undir túlkun þá íbúaráðsins að tillögurnar lýsi vel hug stórs hluta íbúa hverfisins til málefna Suðurlandsbrautar og Háaleitisbrautar. Allt er þetta gott og vel. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið talsmaður þess að íbúðaráðin vinni þétt með íbúum hverfisins. Ráðin eru framhandleggur fólksins í pólitíkina ef svo má að orði komast. Vissulega hafa mál mismikil áhrif en fulltrúa Flokks fólksins fannst þær tillögur sem hér um ræðir umfangsmiklar og líklegt að margir hafi á þeim skoðanir, jafnvel ólíkar. Þegar stórmál eru til umræðu og taka á ákvarðanir er t.d. góð hugmynd að hafa íbúafundi, jafnvel fleiri en einn, og sjá til þess að þeir séu auglýstir rækilega. 

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 3. nóvember 2023. MSS23010015

    Fylgigögn

  28. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál. MSS23120009

    Fylgigögn

  29. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. MSS23120010

    Fylgigögn

  30. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu margir nýir almenningsgarðar eða græn svæði hafa verið skipulögð og byggð/gróðursett síðan um aldamótin? Hver er fermetrafjöldi allra almenningsgarða eða grænna svæða í Reykjavík? Eru almenningsgarðar í Reykjavík flokkaðir eftir einhverjum ákveðnum þáttum? Ef svo er, hverjir eru flokkarnir? Vert er að taka fram að hér er ekki verið að spyrja um ný torg eða almenningsvæði sem eru að mestu hellulögð eða undir múr, gúmmí eða steypu eða einhverju undirlagi sem er ekki gras eða annar gróður. Séu slík svæði flokkuð sem almenningsgarðar eða græn svæði hjá borginni mætti taka það fram í upptalningunni og hver notkun svæðisins sé, eftir því sem við á. MSS23120049

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. 

  31. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um skýrslu starfshóps um greiningu á stöðu Laugarnesskóla en starfshópurinn átti að skila af sér í maí. Svar hefur borist. Flokkur fólksins óskar nánari upplýsinga um hverjar þær „frekari forsendur“ eru sem vísað er til í svarinu og sem borgarráð samþykkti að leggja fyrir starfshópinn. Einnig er spurt: Hversu mikil vinna er þá eftir, verða frekari tafir á birtingu? Hvenær er áætlað að birta skýrsluna? Margir bíða af óþreyju eftir upplýsingum um málið og vilja fá svör, m.a. um lausnir og tímalínu. MSS23020033

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. 

  32. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig skóla- og frístundasvið ætlar að bregðast við nýjustu niðurstöðum PISA. Hvað á að gera í stöðunni? Á hverju á að byrja? Staðan er grafalvarleg og af nýjustu niðurstöðum PISA má draga þá ályktun að tími sé kominn til að horfast í augu við að breyta þurfi nálgun í lestrarkennslu auk margs annars. Rauð ljós hafa logað í mörg ár. Auðvitað eru skýringar ekki einhlítar. Horfa þarf í marga þætti, stuðningur við skóla, aðhald og samskiptin í skólastofunni. Ekki allar aðferðir sem notaðar eru í grunnskólum Reykjavíkur eru full gagnreyndar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ótal sinnum ávarpað þennan vanda og komið með tillögur um breytingar, ýmist að farsími barnanna skuli ekki inn í kennslustofur til að valda þeim ekki truflun og einnig lagt til að leita þurfi nýrra leiða, t.d. með innleiðingu þróunarverkefnisins Kveikjum neistann sem hefur verið að gera það gott í Vestmannaeyjum. Helstu niðurstöður PISA sem nú birtast eru þær að 40% fimmtán ára nemenda á Íslandi búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi. Hlutfall nemenda sem nær þessari grunnhæfni (um 60%) hefur lækkað um 14 prósentustig hér á landi frá síðustu könnun. MSS23120045

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. 

  33. Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum leggur fram svohljóðandi ályktun: 

    Borgarráð fordæmir öll ofbeldisverk sem beinast gegn almennum borgurum í Palestínu og Ísrael. Borgarráð hvetur ekki aðeins til þess að tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum verði komið á á Gaza-svæðinu heldur verði allra leiða leitað til að koma á varanlegum friði. Borgarráð styður frumkvæði framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um að öryggisráðið beiti sér í þágu mannúðar og friðar án tafar og tekur undir kröfur þess efnis að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða. Borgarráð fordæmir hryðjuverkaárás Hamas-liða á almenna borgara í Ísrael sem hófst 7. október 2023. Borgarráð fordæmir sömuleiðis allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, þ.m.t. óheyrilega þjáningu, manntjón, mannfall almennra borgara og eyðileggingu borgaralegra innviða. Brýnt er að öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum verði rannsökuð til hlítar. Borgarráð kallar eftir mannúðlegri meðferð á og tafarlausri lausn gísla, aðgengi hjálpar- og mannúðarsamtaka og að neyðarvistum og læknisaðstoð verði komið til almennings tafarlaust. MSS23120055

    -    Kl. 11:43 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum.

Fundi slitið kl. 11:45

Einar Þorsteinsson Dóra Björt Guðjónsdóttir

Pawel Bartoszek Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Skúli Helgason Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 7.12.2023 - prentvæn útgáfa