Samstarf um hagkvæmt húsnæði

Atvinnumál Framkvæmdir

""

Reykjavíkurborg leitar eftir samstarfsaðilum til að byggja hagkvæmt húsnæði á völdum þróunarreitum í Reykjavík. Frestur til að skila inn umsókn um þátttöku í verkefninu hefur verið framlengdur til 18. júlí.

Á liðnum vetri auglýsti borgin eftir hugmyndum til að auka framboð af hagkvæmu húsnæði fyrir meðal annars ungt fólk og fyrstu kaupendur. Góðar viðtökur voru við því kalli og sendu 68 aðilar inn hugmyndir sem voru kynntar á málþingi í ráðhúsinu.

Nú er komið að öðrum fasa verkefnisins og auglýsir Reykjavíkurborg eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði á völdum reitum í borginni. Einungis lögaðilum er heimilt að senda inn umsókn. Heimilt er að leggja inn umsókn í fleiri en einn þróunarreit.  Umsóknir verða metnar á grundvelli matslíkans og fá aðilar sem voru með tillögu á fyrsta stigi hugmyndaleitar að njóta þess í matslíkani. Lóðum verður úthlutað á föstu verði, kr. 45.000,- á hvern fermetra ofanjarðar auk gatnagerðargjalda, nema annars sé sérstaklega getið. 

Reitirnir sem um ræðir eru í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, í Gufunesi, í Bryggjuhverfi við Elliðaárvog, við Stýrimannaskólann, á Veðurstofureit og í Skerjafirði. Deiliskipulag þessara svæða er mislangt á veg komið. Í kynningarhefti eru nánari upplýsingar um staðsetningu, helstu stærðir og stöðu skipulags á hverjum reit.  

Nánari upplýsingar er að finna hér á vef Reykjavíkurborgar. Vefslóðin er reykjavik.is/hagkvaemt-husnaedi