Samningur á milli Hugarafls og Reykjavíkurborgar framlengdur

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs og Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls, við undirritun samningsins.
Formaður velferðarráðs, sviðsstjóri velferðarsviðs og formaður Hugarafls við undirskriftina.

Samningur Reykjavíkurborgar við Hugarafl, um þjónustu við einstaklinga með andleg veikindi, hefur verið framlengdur til loka árs 2024. Hugarafl eru grasrótarsamtök fólks með andlegar áskoranir. Starfsemi samtakanna er í sameiningu mótuð af einstaklingum með persónulega reynslu af andlegum áskorunum annars vegar og einstaklingum með fagmenntun hins vegar. Samtökin leggja mikið uppúr því að skapa umhverfi sem ýtir undir valdeflingu og bata.

Samningur við Hugarafl var gerður í framhaldi af því að velferðarráð samþykkti í árslok 2020 að hefja samstarf Hugarafl um endurhæfingarúrræði fyrir einstaklinga sem eru óvinnufærir og hafa verið á fjárhagsaðstoð í lengri tíma. Í kjölfarið samþykkti borgarráð að nýta allt að 26 milljónir af bundnum lið fjárhagsaðstoðar til endurhæfingarverkefnisins. Í kjölfar samþykkta ráðanna gerðu velferðarsvið og Hugarafl með sér samning og hefur Virknihús fylgt þeim samningi eftir, en í gegnum Virknihús getur fólk farið margþættar leiðir í endurhæfingu fyrir þátttöku á vinnumarkaði eða í átt til aukinnar virkni og þátttöku. Markmiðið með öllum úrræðum Virknihúss er að bæta lífsgæði fólks og auka tækifæri þess í lífinu með áherslu á sjálfsstyrkingu, nám og bata. 

46 einstaklingar fengið þjónustu á grundvelli samningsins

Frá upphafi hafa 46 einstaklingar fengið þjónustu Hugarafls á grundvelli samningsins, en hann gerir ráð fyrir að um 20 einstaklingar séu í úrræðinu hverju sinni. Markmiðið með samstarfinu er að einstaklingar sem lokið hafa 12–18 mánaða endurhæfingu þurfi ekki lengur að reiða sig á fjárhagsaðstoð til framfærslu. Af þeim 46 einstaklingum sem vísað hefur verið til Hugarafls á grundvelli samningsins reiða 67% sig ekki lengur á fjárhagsaðstoð til framfærslu.

„Það er ánægjulegt að við höfum endurnýjað samninginn við Hugarafl. Þar fer fram mikilvægt starf sem hefur skilað sér í auknum lífsgæðum fyrir einstaklinga sem glíma við andleg veikindi. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs,“ segir Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs.

Í sama streng tekur Auður Axelsdóttir, framkvæmdastjóri Hugarafls: „Við erum mjög ánægð með samstarfið við velferðarsvið Reykjavíkurborgar og finnum fyrir miklum metnaði sem byggir á að veita persónulega þjónustu með bata og valdeflingu að leiðarljósi. Notandinn hefur tíma til að sinna endurhæfingu og bataferlinu á sínum forsendum sem eflir möguleika á virkni og samfélagslegri þátttöku. Samtalið á milli aðila hefur verið virkt og opið sem við erum afar þakklát fyrir.“ 

95% sögðust upplifa vingjarnlegt viðmót frá starfsfólki

Í árslok 2021 gerði teymi árangurs- og gæðamats á velferðarsviði könnun meðal þátttakenda í Hugarafli. Hringt var í 32 núverandi og þáverandi þátttakendur og svöruðu 65% þeirra könnuninni. Markmið könnunarinnar var meðal annars að kanna hvernig þátttakendum liði í Hugarafli og hvort þátttaka í verkefninu væri að mæta þörfum þeirra. Niðurstöður þeirrar könnunar sýndu að 95% upplifðu vingjarnlegt viðmót frá starfsfólki og 65% sögðust upplifa vingjarnlegt viðmót frá stjórnendum. Þá upplifuðu um 70% góðan anda í Hugarafli.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála framkvæmdi gerði einnig úttekt á starfsemi Hugarafls árið 2022. Niðurstöður viðtala bentu til þess að starfsemi Hugarafls hafi nýst mörgum vel við að bæta lífsgæði sín og ná bata. Þá var haustið 2022 birt skýrsla á vegum Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands um niðurstöður þjónustukönnunar sem gerð var að beiðni Hugarafls. Fram kom að 90% félagsmanna eru mjög ánægðir með starf Hugarafls en 3% óánægðir og 84% félagsmanna þakka Hugarafli árangur í bataferli sínu. Könnunin náði til virkra félagsmanna Hugarafls síðustu tvö árin.