Samkeppni um nýjan leik- og grunnskóla í Vogabyggð

Horft yfir Fleyvang og Vogabyggð.
Loftmynd af Vogabyggð

Reykjavíkurborg efnir til tveggja þrepa samkeppni um nýjan samþættan leik- og grunnskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöð og nýja göngu- og hjólabrú á Fleyvangi. Að samkeppninni standa umhverfis- og skipulagssvið og skóla- og frístundasvið í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Mannvirkin munu þjóna nýrri Vogabyggð en gert er ráð fyrir allt að 1500 íbúðum á svæðinu. Skil á tillögum í 1. þrepi er til 15. ágúst 2023.

Meginmarkmið samkeppninnar

 • Ná fram framúrskarandi og framsýnni byggingarlist og landslagshönnun sem skapar nýja umgjörð á Fleyvangi fyrir byggingu, brú og útisvæði fyrir skóla- og frístundastarf.
 • Fanga staðaranda og þau gæði sem eru í nærumhverfi Fleyvangs og sérstöðu í borgarlandinu.
 • Sýna samspil og samþættingu mannvirkja, nærumhverfis og útisvæða.
 • Mynda örugga og áhugaverða tengingu á milli Vogabyggðar og Fleyvangs.
 • Byggja fyrir börn og unglinga. Hönnunin skal fanga mismunandi þarfir og upplifun út frá aldri og þroska barna og unglinga ásamt því að umhverfið tryggi lifandi, kraftmikið og jákvætt umhverfi.
 • Vinna með sjálfbærni og vistvæna hönnun.
 • Ná fram hagkvæmni og huga að kostnaðargát.

Áherslur í starfi skólans

 • Samnýting rýma og sveigjanleiki.
 • Þverfagleg nálgun fagstétta og samvinna allra sem koma að skóla- og frístundastarfi.
 • Samfella í degi barnsins innan veggja skólans, það er frístundarstarfs og skólatíma.
 • Sjálfstæði barna og samvinna allra.

Rýmisupplifun og hönnun þarf að tryggja sérstöðu og sérþarfir einstakra aldurshópa samhliða flæði, gagnsæi og yfirsýn í stóra samhenginu.

Um keppnina

Samkeppnin er tveggja þrepa framkvæmdasamkeppni. Á 1. þrepi setja keppendur fram hugmyndir um lausn viðfangsefnisins í samræmi við keppnislýsingu. Á 2. þrepi þróa keppendur tillögur sínar áfram. Samkeppnin fer fram í samræmi við keppnislýsinguna og fylgigögn og lög um opinber innkaup og innkaupareglur Reykjavíkurborgar.

26.5.23: NÝTT! 

Í ljós hafa komið ákveðnir tæknilegir örðugleikar varðandi fyrirkomulag samkeppninnar. Dómnefnd hefur af þessum sökum og vegna sumarleyfa, í samráði við trúnaðarmann samkeppninnar, ákveðið að fresta skilum á tillögum í 1. þrepi fram til 15. ágúst 2023.

Keppendur skrá sig til þátttöku á útboðsvef Reykjavíkurborgar. Hægt er að skila inn gögnum á 1. þrepi samkeppninnar  Skilafrestur tillagna á 2. þrepi er 6. desember 2023.

Dómnefnd stefnir að því að skila niðurstöðum í janúar 2024

Ný tímalína: 

1. þrep:
Skilafrestur fyrirspurna, 6. júní, kl. 12.
Svör við fyrirspurnum, 13. júní, kl. 12.
Skilafrestur tillagna á 1. þrepi, 15. ágúst, kl. 12.
Niðurstaða dómnefndar á 1. þrepi, 5. september.

2. þrep:
Vinna við 2. þrep hefst, 6. september.
Skilafrestur fyrirspurna, 2. október, kl.12.
Svör við fyrirspurnum, 9. október.
Skilafrestur tillagna á 2. þrepi, 6. desember,kl. 12.