Samkeppni um hönnun og byggingu Þjóðarhallar

Einar Þorsteinsson borgarstjóri, Jón Arnór Stefánsson formaður stjórnar Þjóðarhallar ehf., Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra á kynningunni í dag. Róbert Reynisson
Borgarstjóri, formaður Þjóðarhallar, mennta- og barnamálaráðherra og fjármálaráðherra standa saman og brosa

Þjóðarhöll ehf., fyrir hönd ríkis og Reykjavíkurborgar, býður fyrirtækjum og teymum að sækja um þátttöku í forvali fyrir samkeppnisútboð fyrir hönnun og byggingu nýrrar Þjóðarhallar fyrir innanhúsíþróttir í Laugardal.

Tími framkvæmda og forgangur í fjárfestingu

„Tími framkvæmda er runninn upp," sagði Jón Arnór Stefánsson formaður stjórnar Þjóðarhallar ehf. á kynningafundi í Laugardalshöll í dag. Þar fór hann yfir framkvæmdirnar sem framundan eru en gert er ráð fyrir að hægt verði að taka fyrstu skóflustungu að nýrri Þjóðarhöll 2025 eða 2026. Í dag fór í auglýsingu forval fyrir samkeppnisútboð um hönnun og byggingu hallarinnar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra minnti á mikilvægi þess að forgangsraða verkefnum hvað varðar opinbera fjárfestingu. Kraftur verður hins vegar settur í byggingu nýrrar Þjóðarhallar sem sett verður í forgang. „Reykjavík er höfuðborg íþróttanna og Laugardalurinn er hjartað," sagði Einar Þorsteinsson borgarstjóri sem fagnaði því að þetta stóra verkefni væri komið skrefinu lengra í dag.

Loftmynd yfir Laugardalinn að sumri til

Forval fyrir samkeppnisútboð fyrir hönnun og byggingu 

Forvalið er gott tækifæri fyrir áhugasama aðila til að vera hluti af þróun fjölnota samfélagshúss fyrir íþróttir, kennslu og menningu sem mætir þörfum og kröfum til alþjóðakeppni  og stærri viðburða. Þjóðarhöllin verður hjarta íþrótta og lýðheilsu í Laugardalnum, með stærð allt að 19.000 m², sæti fyrir 8.600 áhorfendur og rými fyrir allt að 12.000 gesti á viðburðum. 

Markmiðið er að

  • skapa aðstöðu sem endurspeglar nútímaleg gildi um aðgengi, samfélag og umhverfisvernd,
  • veita aðgengi að fjölnota aðstöðu fyrir íþróttir, menningu, kennslu og viðburði,
  • styrkja tengsl milli Þjóðarhallar og núverandi mannvirkja í Laugardalnum,
  • vera aðgengileg almenningi og styrkja lýðheilsumarkmið,
  • uppfylla kröfur um algilda hönnun og BREEAM umhverfisvottun á stigi „excellent“.

Umsóknarfrestur er til 7. maí 2024.

Eftir að forvali lýkur og 3-4 teymi hafa verið valin, hefst samkeppnin um endanlega hönnun og byggingu Þjóðarhallar. Niðurstaða forvals er áætluð í júní 2024.

Ríkiskaup annast forval og samkeppnisútboð. Skráning umsækjenda fer fram á útboðsvef Ríkiskaupa þar sem veittar eru frekari leiðbeiningar um skil á gögnum.

Áhugasamir aðilar eru hvattir til að grípa þetta einstaka tækifæri til að móta, þróa og byggja Þjóðarhöllina, sem gegna mun lykilhlutverki í íslensku samfélagi og íþróttalífi.