Sameining tveggja fagsviða framundan

Ráðhús Reykjavíkur.

Borgarráð samþykkti í dag að menningar- og ferðamálasvið (MOF) og íþrótta- og tómstundasvið (ÍTR) verði sameinuð í eitt svið undir stjórn eins sviðsstjóra. Miðað er við að breytingin taki gildi 1. janúar 2023.

Markmiðið með sameiningu sviðanna tveggja er að styrkja málaflokka menningar-, íþrótta,- og skipulagðra tómstunda af fjölbreyttu tagi með því að nýta samlegð í innviðum og miðlægri stjórnsýslu ásamt því að kortleggja sameiginleg sóknarfæri til framtíðar.

Þetta er í samræmi við samstarfssáttmála núverandi meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar en segja má að fyrsta skrefið í auknu samstarfi sviðanna hafi verið stigið í skipulagsbreytingum árið 2018 þegar menningar- og ferðamálaráð og íþrótta- og tómstundaráð voru sameinuð í eitt ráð.

Auglýst verður nýtt starf sviðsstjóra nýja sviðsins sem ber vinnuheitið menningar-, íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkurborgar.

Starfshópur embættismanna mun halda utan um sameiningarverkefnið og verður rík áhersla lögð á samráð við stjórnendur og annað starfsfólk sviðanna. Borgarritara hefur verið falið að leiða starfshópinn og undirbúning sameiningar þar til nýr sviðsstjóri hefur tekið til starfa. Starfshópnum hefur einnig verið falið að rýna sóknarfæri sem felast í sameiningu, fara í fjárhagslega greiningu, gera tillögur að nýju skipuriti og innleiðingaráætlun.