Nýr meirihluti í borgarstjórn kynntur í Elliðaárdal

Nýr meirihlutasáttmáli kynntur á tröppum stöðvarstjórahússins í Elliðaárdal

Nýr meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokksins, Pírata og Viðreisnar var kynntur við stöðvarstjórahúsið í Elliðaárdal í dag. 

Einar Þorsteinsson, Framsóknarflokki, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Pírötum, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Viðreisn og Dagur B. Eggertsson, Samfylkingu kynntu samstarfssáttmála í dag klukkan 15. Oddvitar sögðu viðræður hafa gengið vel og góðan anda ríkja í hópnum sem sameinast um stjórn borgarinnar næstu fjögur árin.

Dagur B. Eggertsson verður borgarstjóri næstu átján mánuði eða til upphafs ársins 2024 þegar hann tekur við formennsku í borgarráði af Einari Þorsteinssyni og Einar tekur við borgarstjórastólnum. Dóra Björt Guðjónsdóttir mun leiða umhverfis- og skipulagsmál sem aftur eru sameinuð í einu ráði og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verður forseti borgarstjórnar.

Í upphafi sáttmálans sem telur 32 blaðsíður og fjallar um helstu áhersluatriði í mörgum málaflokkum eru sérstaklega tekin fram 18 atriði sem sett verða í forgang í upphafi kjörtímabilsins:

  • Við ætlum að ráðast í húsnæðisátak og úthluta lóðum í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, á Hlíðarenda, í Gufunesi og á Ártúnshöfða. 
  • Við viljum efna til samkeppni um skipulag Keldnalands og Keldnaholts og flýta þannig uppbyggingu svæðanna með tilkomu Borgarlínu.
  • Við ætlum að hefja gerð umhverfismats vegna Sundabrautar.
  • Við ætlum að beita okkur fyrir gerð húsnæðissáttmála ríkis og sveitarfélaga.
  • Við ætlum að hækka frístundastyrk upp í 75 þúsund krónur frá 1. janúar 2023.
  • Við ætlum að hafa ókeypis í sund fyrir börn á grunnskólaaldri.
  • Við ætlum að hafa ókeypis í Strætó fyrir börn á grunnskólaaldri.
  • Við ætlum að koma á næturstrætó.
  • Við ætlum að gera tilraun með miðnæturopnun í einni sundlaug, einu sinni í viku.
  • Við ætlum að setja viðhaldsátak í leik-, grunn- og frístundahúsnæði borgarinnar í forgang og flýta verkefnum eins og kostur er.
  • Við ætlum að hefja átak í betri svefni barna og skoða breytingar á upphafi skóladags.
  • Við ætlum að setja á fót skaðaminnkandi úrræði fyrir unga karlmenn.
  • Við ætlum að stofna framkvæmdanefnd um þjóðarhöll og aðstöðu fyrir börn og unglinga í Laugardal í samvinnu við ríkið.
  • Við ætlum að auglýsa eftir samstarfsaðilum til að þróa hugmyndir um miðstöð jaðaríþrótta í Toppstöðinni í Elliðaárdal.
  • Við ætlum að efna til samkeppni um Dans- og fimleikahús í Efra-Breiðholti.
  • Við viljum ná samstöðu um að stofna áfangastaða- og markaðsstofu ásamt sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu til að efla ferðaþjónustu á svæðinu.
  • Við ætlum að hefja framkvæmdir á Hlemmtorgi.
  • Við ætlum að efna til samtals við alla borgarfulltrúa um bættan starfsanda og fjölskylduvæna borgarstjórn.