Rúmlega 120 starfsstaðir borgarinnar komnir með Regnbogavottun
Skrifstofa velferðarsviðs hefur bæst í hóp þeirra starfsstaða Reykjavíkurborgar sem hafa fengið Regnbogavottun. Markmiðið með Regnbogavottun Reykjavíkurborgar er að gera starfsemi borgarinnar hinseginvænni, bæði fyrir starfsfólk og notendur þjónustunnar, og koma í veg fyrir beina og óbeina mismunun í garð hinsegin fólks.
Í heild hafa rúmlega 120 starfsstaðir Reykjavíkurborgar fengið Regnbogavottun og um þessar mundir eru ellefu starfsstaðir í virku ferli til að fá vottunina. Um 60 starfsstaðir eru á biðlista eftir að fá að hefja ferlið.
Hér má sjá lista yfir þá starfsstaði Reykjavíkurborgar sem eru með Regnbogavottun.
Á meðal aðgerða að halda Regnbogadag árlega
Til að fá Regnbogavottun hefur allt starfsfólk tekið þátt í fræðslu, auk þess að starfsemi skrifstofunnar hefur verið rýnd með hinsegin gleraugunum og unnin aðgerðaáætlun sem miðar að því að gera starfsstaðinn hinseginvænni. Á meðal þeirra aðgerða sem skrifstofa velferðarsviðs ætlar að ráðast í er að halda árlegan regnbogadag og vekja þannig athygli á málefnum hinsegin fólks, viðhalda þekkingu á hinsegin málefnum með ýmsum leiðum og fara yfir orðalag alls útgefins efnis á vegum skrifstofunnar með tillit til kynhlutlauss orðalags. Þá verður hvatt til að sækja um störf á skrifstofunni óháð kyni og tekið fram í auglýsingum að starfsstaðurinn sé regnbogavottaður.
Um sextíu starfa á skrifstofu velferðarsviðs sem staðsett er í Borgartúni. Henni tilheyra skrifstofur þeirra málaflokka sem heyra undir velferðarsvið – málaflokka fatlaðs fólks, eldra fólks, virkni og ráðgjafar. Þar eru að auki eru þar skrifstofur stjórnsýslu, mannauðs og fjármála. Undir velferðarsvið heyrir fjöldi annarra starfsstaða og gerir Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, ráð fyrir að fleiri starfsstaðir bætist í hópinn. „Ég hvet starfsfólk og stjórnendur starfsstaða velferðarsviðs til að hefja ferlið í átt að Regnbogavottun, svo við getum öll tekið þátt í því að skapa borg sem er góður staður fyrir okkur öll, bæði í leik og starfi,“ segir hún.
Starfsfólk almennt móttækilegt fyrir Regnbogavottun
Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir sér um fræðslu vegna Regnbogavottunarinnar en hún er sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks og starfar á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar. Hún segir starfsfólk almennt mjög móttækilegt fyrir Regnbogavottun. Í fræðslunni myndist oft líflegar samræður sem bendi til þess að hún skili því hlutverki að opna hug fólks fyrir þeim fjölbreytileika sem er til staðar í samfélaginu. „Regnbogavottun Reykjavíkurborgar skiptir miklu máli, einkum á þessum síðustu og verstu þar sem mikil skautun virðist vera til staðar í samfélaginu og grunnt er á fordómum gagnvart jaðarsettum hópum. Reykjavíkurborg er með hinseginvæna Mannréttindastefnu og hefur meðal annars einsett sér að vinna markvisst og skipulega að því að móta og byggja upp fræðslu og upplýsingamiðlun í þágu jafnréttis og margbreytilegs samfélags. Regnbogavottunin er mikilvægur liður í að framfylgja þeirri stefnu,“ segir hún.