Rúmir 5 milljarðar í leikskólauppbyggingu í Reykjavík

""

Stýrihópurinn Brúum bilið, sem skipaður var vorið 2016, hefur skilað inn tillögum að því hvernig best er að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á næstu fimm árum. Það verður fyrst og fremst gert með byggingu nýrra leikskóla, viðbyggingum og nýjum leikskóladeildum við starfandi leikskóla borgarinnar en einnig með samningum um fjölgun barna hjá sjálfstætt reknum leikskólum.  Áætlað er að verja 5,2 milljörðum króna til þessarar uppbyggingar á næstu 5 árum.

Leikskólarýmum verður fjölgað um allt að 750  á næstu fimm árum til að hægt verði að bjóða öllum börnum tólf mánaða og eldri pláss á leikskóla fyrir lok árs 2023. Á næstu fimm árum verða byggðir fimm nýir leikskólar og reistar verða a.m.k. fimm viðbyggingar við leikskóla þar sem er mikil eftirspurn. Einnig verða opnaðar nýjar leikskóladeildir í færanlegu húsnæði við fjóra leikskóla strax á næsta ári.

Settar verða á fót sérútbúnar ungbarnadeildir við alla borgarrekna leikskóla sem hafa fjórar deildir eða fleiri. Það á við um 46 leikskóla og stefnt er að því að þeir verði allir búnir sérstakri ungbarnadeild fyrir árslok 2023.  Nú þegar hafa 14 ungbarnadeildir tekið til starfa við borgarrekna leikskóla og fjölgar þeim um sjö á ári á komandi árum.

Formleg inntaka barna í leikskóla verður tvisvar á ári, haust og vorönn og heimilt er að taka inn börn á öðrum tímum ef rými losnar.

Einnig er stefnt að því fjölgun barna verði hjá sjálfstætt reknum leikskólum og dagforeldrum í góðu samstarfi við viðkomandi rekstraraðila.  Kynntar eru áætlanir um fjölgun barna um allt að 167 á næstu árum hjá sjálfstætt starfandi leikskólum.

Unnið er að gerð viðmiða um stærð leikskóla á skóla- og frístundasviði og er gengið út frá því að með uppbyggingu leikskóla á næstu árum ætti að horfa til þess að stækka einingar. Nú eru að meðaltali 91 barn í hverjum leikskóla en byggja á nýja leikskóla sem telja 6-10 deildir eða 120 – 200 börn undir einu þaki.

Mikilvæg forsenda verkefnisins er að áform ríkisins um lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði verði að veruleika en Reykjavíkurborg vill og hyggst taka fulla ábyrgð á því að bjóða börnum leikskólaþjónustu að því loknu.  Stýrihópurinn telur raunhæft að ná því marki á næstu fimm árum þar sem í öruggum skrefum verði hægt að bjóða yngri börnum leikskólarými. Helsti óvissuþátturinn felst í skorti á leikskólakennurum en þeim ætti að fjölga samhliða markvissum aðgerðum borgarinnar til að bæta starfsumhverfi þeirra.

Stýrihópinn skipuðu Skúli Helgason formaður, Líf Magneudóttir, Örn Þórðarson, Guðrún Alda Harðardóttir og James Maddison.  

Brúum bilið, lokaskýrsla starfshóps