Borgarráð samþykkti í dag einróma að styrkja börn í Palestínu um 150 krónur fyrir hvert reykvískt barn á aldrinum 0-18 ára. Þannig mun Reykjavíkurborg styrkja UNICEF um 4,5 milljónir króna.
Líf Magneudóttir, áheyrnarfulltrúi Vinstri Grænna í borgarráði, lagði fram tillögu sem hljómaði svo: Í ljósi þeirra hörmulegu átaka og mannúðarkrísu á Gaza samþykkir borgarráð að styrkja neyðaraðstoð við palestínsk börn sem nemur um 100 krónum fyrir hvert reykvískt barn á aldrinum 0-18 ára.”
Á fundi sínum í morgun samþykkti borgarráð tillöguna með þeirri breytingu að framlagið var hækkað úr 100 krónum fyrir hvert reykvískt barn í 150 krónur. Þá var lögð fram svohljóðandi bókun allra fulltrúa í borgarráði: „Skelfileg átök í Palestínu síðustu mánuði hafa haft hræðileg áhrif á saklausa borgara og bitna átökin sérstaklega á börnum. Óbreyttir borgarar eru uppiskroppa með mat, vatn, lyf og aðrar nauðsynjar. Í ljósi þess samþykkir borgarráð að styðja við neyðarsöfnun Unicef fyrir börn á Gaza en samtökin standa með réttindum barna og starfa í þágu allra barna sem oft verða verst úti í stríðsátökum. Borgarráð styrkir söfnunina sem nemur 150 krónum fyrir hvert reykvískt barn á aldrinum 0-18 ára. Heildarupphæðin nemur 4,5 milljónum króna.“