Reykjavíkurborg stuðlar að uppbyggingu nær þrjú þúsund leiguíbúða

Stjórnsýsla Velferð

""

Borgarráð tók fyrir á fundi sínum í dag sautján tillögur húsnæðishóps borgarráðs sem hafa að markmiði að á milli 2.500 og 3.000 leiguíbúðir rísi á þéttingarreitum víða í Reykjavík á næstu þremur til fimm árum.

Gert er ráð fyrir að uppbyggingin fari fram í gegnum lóðaúthlutanir fyrir rótgróin byggingarfélög, en að jafnframt verði ný slík félög stofnuð í samráði við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar. Sérstaklega er auglýst eftir samstarfshugmyndum frá einkaaðilum og fjárfestum.

Ein helstu nýmælin í tillögunum eru þau að lagt er til að borgin beiti sér fyrir uppbyggingu almenns leiguhúsnæðis í gegnum Félagsbústaði, félag í eigu borgarinnar.

Fjölbreyttar íbúðir í takt við nýtt aðalskipulag

Uppbyggingaráætlun fylgir tillögunum og gerir hún ráð fyrir að allt að helmingur nýrra íbúða sem ráðist verði í til 2018 verði leiguíbúðir eða búseturéttaríbúðir. Í nýju aðalskipulagi er gert ráð fyrir að 25% af uppbyggingu á öllum nýjum byggingarsvæðum í Reykjavík miðist við þarfir þeirra sem ekki geta lagt mikið fé í eigið húsnæði. Gerðar eru tillögur að staðsetningu leiguíbúða til að tryggja að eftirsótt svæði, svo sem á hafnarsvæðinu og í Vatnsmýri verði ekki aðeins fyrir stórar og dýrar íbúðir, heldur einnig minni og viðráðanlegri.

Reykjavíkuríbúðir 21. aldarinnar í hönnunarsamkeppni

Reykjavíkurborg ætlar samkvæmt  tillögunum í samstarf við Samtök iðnaðarins,  Hönnunarmiðstöð Íslands og hönnunarsjóðinn Aurora um þróun og hönnun minni og ódýrari íbúða en áður hafa verið byggðar í borginni. Setja á af stað hönnunarvettvang fyrir fagfólk úr ólíkum áttum sem munu hanna íbúðir fyrir Reykjavík 21. aldarinnar, einsog komist er að orði í verkefnislýsingu.

Ætlunin er að nýju Reykjavíkurhúsin sem verða hönnuð og teiknuð verði einnig byggð.  Félagsbústöðum er ætlað að leiða þá uppbyggingu fjölbreyttra leiguíbúða á völdum stöðum. Mun Reykjavíkurborg leggja til lóðir og eigið fé til uppbyggingar á þéttingareitum fyrir um 400 – 800 íbúðir í 15 – 30 fjölbýlishúsum víða í Reykjavík. Félagsbústaðir munu fjármagna framkvæmdirnar með eiginfjárframlagi borgarinnar og lánsfé frá Íbúðarlánasjóði, samstarfi við lífeyrissjóði eða lánsfé á almennum markaði.

Fleiri hundruð nýjar íbúðir fyrir námsmenn

Um 350 – 400 íbúðir fyrir námsmenn munu rísa á svæði Háskóla Íslands og 97 íbúðir fyrir námsmenn að Brautarholti 7 og 50 íbúðir við Kennaraháskóla Íslands við Bólstaðarhlíð. Þá er lagt til að 100 stúdentaíbúðir rísi í Skerjafirði á landi í eigu borgarinnar og að 300 stúdentaíbúðir verði byggðar á svæði HR við Öskjuhlíð.

Þá er gert ráð fyrir að rótgróin byggingarfélög eins og Byggingarfélag námsmanna taki þátt í uppbyggingunni.

Íbúðir fyrir aldraða

Samkvæmt tillögunum munu samtök aldraðra fá úthlutað lóðum í Mjódd og Bólstaðarhlíð og að Hrafnista muni reisa hjúkrunarheimili við Sléttuveg. Þá er gert ráð fyrir að Grund verði úthlutað lóð fyrir eldri borgara í Mörkinni.

Búseturéttaríbúðir

Þá er samkvæmt tillögunum gert ráð fyrir að Búseti  fái úthlutað lóðum við Keilugranda, auk uppbyggingar félagsins við Einholt-Þverholt og stuðlað verði að því að um 100 nýjar búseturéttaríbúðir geti bæst við árlega næstu ár.

Áætlunin er byggð á húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar og miðast við nýtt aðalskipulag borgarinnar til 2030.

Tillögur húsnæðishóps borgarráðs eru alls 17 talsins, auk fylgiskjala.

Í fylgiskjalinu hér að neðan má sjá áætlanir um uppbyggingu til skemmri tíma og tillögur að úthlutun. 

Uppbyggingaráætlun um eflingu leigumarkaðar í Reykjavík