Reykjavíkurborg hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Atvinnumál Mannréttindi

Viðurkenningarhafar Jafnvægisvogarinnar 2024 hópmynd

Viðurkenningarhátíð Jafnvægisvogarinnar 2024- Látum eitthvað gerast, jafnrétti er ákvörðun- var haldin við hátíðlega athöfn í gær. 130 aðilar hlutu viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis FKA (Félags kvenna í atvinnulífinu), eða 93 fyrirtæki, 15 sveitarfélög og 22 opinberir aðilar.

Í ár er metfjöldi viðurkenningarhafa, en það eru þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Að hreyfiaflsverkefninu standa auk FKA, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, Pipar\TBWA, Ríkisútvarpið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá.

Mælaborð Jafnvægisvogarinnar

Jafnvægisvogin heldur úti mælaborði sem er ætlað að halda utan um tölfræðilegar upplýsingar um jafnrétti. Þannig er hægt að tryggja aðhald og sýna stöðuna eins og hún er hverju sinni. Í mælaborði Jafnvægisvogarinnar koma fram allar helstu upplýsingar um stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi, svo sem kynjahlutföll stofnenda fyrirtækja, framkvæmdastjóra og stjórna. Þar má einnig finna upplýsingar um kynjahlutföll við brautskráningar úr háskólum, stöðu kynjanna innan atvinnugreina og GemmuQ kynjakvarðann fyrir skráð félög á markaði. Í mælaborðinu sem að Creditinfo, Deloitte og Jafnvægisvogarráðið hafa þróað eru upplýsingarnar gerðar aðgengilegar á einfaldan og skýran hátt.

Hvetja fleiri til þátttöku

„Það er frábært að sjá fjölgun í hópi viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar árið 2024, sem endurspeglar metnað fyrirtækja til að ná fram jafnrétti. Jafnrétti er mál sem snertir okkur öll og það hefur sýnt sig í viðbrögðum við markaðsherferðinni „Ilmur af konu“, sem var haldin í tengslum við árlegu viðurkenningarhátíðina”, segir Bryndís Reynisdóttir, verkefnastjóri Jafnvægisvogarinnar. „Þrátt fyrir þennan góða árangur viljum við hvetja fleiri til þátttöku. Það er mikilvægt að hvert og eitt fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélag skoði stöðu sína og krefjist þess að kynjahlutfall í æðstu stjórnunarstöðum sé sem jafnast. Látum eitthvað gerast, jafnrétti er ákvörðun.

Jafnréttislundur vex og dafnar

Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar 2020 var kynntur nýr Jafnréttislundur FKA, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur útvegaði Jafnvægisvoginni. Árlega frá árinu 2020 hafa forsvarskonur verkefnisins gróðursett tré í Jafnréttislundinum að ráðstefnu lokinni, eitt fyrir hvern viðurkenningarhafa. Í ár verða gróðursett alls 130 tré eitt fyrir hvern viðurkenningarhafa árið 2024 og verður þá búið að setja niður samtals 392 tré í Jafnréttislundinum á síðustu 5 árum. Við valið er horft til þess að velja margar ólíkar tegundir af trjám, sem tákn um þann fjölbreytileika sem Jafnvægisvogin stuðlar að. Það er markmið Jafnvægisvogarinnar að endurtaka þetta árlega og væri ánægjulegt að sjá hlíðina fyllast á næstu árum, með auknu jafnrétti.