Reykjavíkurborg fjárfestir fyrir 20 milljarða í ár

Samgöngur Umhverfi

""

Fjárfestingar Reykjavíkurborgar í innviðum og þjónustu verða 19,6 milljarðar í ár. Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóri þegar hann kynnti fjárfestingaáætlun borgarinnar á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í janúar.

Af þeim tæplega 20 milljörðum sem fara til fjárfestinga í ár renna 9,3 milljarðar í fasteignir og stofnbúnað, 8 milljarðar til gatna- og umhverfisframkvæmda og rúmlega 2 milljarðar í aðrar fjárfestinga. Dagur kynnti áætlunina nánar og má skoða kynningu hans hér.

Það kveður við grænan tón í fjárhagsáætlun borgarinnar en fjórðungur fjárfestinga markast af þeim áherslum. 
 

Skólamálin vega þungt

Framlög til skólahúsnæðis og búnaðar nema rærri 3,6 milljörðum króna og þar af  á að byggja nýjar leikskóladeildir fyrir tæplega 2,3 milljarða og endurgera leikskólalóðir fyrir 300 milljónir.

Íþróttir og tómstundir fá nærri 3,5 milljarða til fjárfestinga og þar af fer 1,6 milljarður í íþróttamiðstöð Fram í Úlfarsárdal og 700 milljónir til uppbyggingar íþróttamannvirkja ÍR í Mjódd. Framlög til skíðasvæða nema rúmum 550 milljónum.

Til uppbyggingar Menningarmiðstöðvar í Úlfarsárdal er ráðstafað milljarði og til uppbyggingar í Grófarhúsi 200 milljónum.

Borgarlína og hjólreiðaáætlun  

Tónninn fyrir Borgarlínu er sleginn í fjárfestingaráætluninni og gerði Dagur samgöngusáttmálann að umtalsefni í kynningu sinni. Framlag Reykjavíkurborgar í ár er hátt í 600 milljónir sem sérstakt framlag, en svo samþættist þetta stóra framtíðarverkefni inn í aðra uppbyggingu og umbætur.

Rúmlega 1,6 milljarður er eyrnamerktur umhverfis- og aðgengismálum, en þar nema framlög vegna hjólreiðaáætlunar hálfum milljarði og LED-götulýsing fær 300 milljónir, auk þess sem endurnýjun gönguleiða og upphitun í eldri hverfum fær 200 milljónir.

Til framkvæmda í miðborginni fara rúmlega 800 milljónir, en helmingur þess fjár fer til endurgerðar Tryggvagötu frá Pósthússtræti að Naustum. Framlög til Hlemmsvæðisins og endurbóta á Laugavegi nema um 200 milljónum.

Gatnagerð í nýjum hverfum kostar 2,8 milljarða og þar af fara 600 milljónir til gatnagerðar á Hlíðarenda og 400 milljónir til Vogabyggðar. Áfram verður unnið að gatnagerð við Leirtjörn í Úlfarsárdal en til þess verkefnis er ráðstafað 250 milljónum. Ný svæði á Veðurstofureit, Sjómannaskólareit og í Skerjafirði, fá minni framlög enda eru þau á undirbúningsstigi.
 

Nánari upplýsingar: