Reykjavík fær styrk til nýsköpunar í loftslagsmálum

Loftslagsmál

Styrkurinn er upp á 90 milljón krónur og verður notaður í tilraunaverkefni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum og úrgangi. Mynd/Róbert Reynisson
loftmynd af Reykjavík

Reykjavíkurborg er á meðal 25 borga sem fá styrk frá Evrópusambandinu til nýsköpunarverkefna í loftslagsmálum. Styrkurinn er veittur til hluta þeirra borga sem voru valdar sem þátttakendur í Evrópusamstarfi um 112 kolefnishlutlausar og snjallar borgir. Styrkurinn á að styðja við markmið borganna um flýta vegferð sinni í átt að kolefnishlutleysi fram til ársins 2030. 

Reykjavík fær nú titilinn „Pilot borg“ enda er litið til þessara borga sem fyrirmynd annarra um að hraða þessu ferli með ýmiss konar nýsköpun í fjölbreyttum loftslagsverkefnum. Styrkurinn er hluti af verkefnum Horizon Europe, sem er rannsóknar- og nýsköpunarvettvangur Evrópusambandsins.

Tveggja ára verkefni

Styrkurinn er upp á 90 milljón krónur og verður notaður í tilraunaverkefni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum og úrgangi. Verkefnið er til tveggja ára og er í samstarfi við Háskóla Íslands og Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands.

Borgirnar sem valdar voru til þátttöku auk Reykjavíkur eru Helsinki og Tampere í Finnlandi, München, Dortmund, Heidelberg, Leipzig og Dresden í Þýskalandi, Brussel og Antwerpen í Belgíu, Gabrovo í Búlgaríu, Sønderborg í Danmörku, Angers Loire-borgarsvæðið, Bordeaux, Dunkerque og París í Frakklandi, Dublin og Cork á Írlandi, Aþena, Trikala, Kalamata og Þessalónika í Grikklandi, Elbasan í Albaníu, Izmir í Tyrklandi og Gautaborg í Svíþjóð.

Verkefnið verður unnið með stuðningi NetZeroCities, líkt og verkefnið um kolefnishlutlausar og snjallar borgir og verður notað til stuðnings við gerð loftslagssamnings Reykjavíkurborgar.