Reiðhjólabændur gefa gestum neyðarskýla reiðhjól

Reiðhjólabóndinn Birgir Fannar Birgisson afhendir Victori Alexander Guðjónssyni reiðhjól.
Victor, starfsmaður í neyðarskýlinu á Lindargötu, og Birgir Fannar Birgisson frá samtökunum Reiðhjólabændum. Á milli þeirra er hjól.

Grasrótarsamtökin Reiðhjólabændur komu í vikunni fyrir tólf reiðhjólum í nýjan reiðhjólastand fyrir framan neyðarskýlið á Lindargötu. Vonast Reiðhjólabændur til þess að hjólin gagnist þeim einstaklingum sem nýta skýlin til að komast ferða sinna í borginni. 

Reiðhólabóndinn Birgir Fannar Birgisson afhenti hjólin formlega í gær en það var Victor Alexander Guðjónsson, teymisstjóri í neyðarskýlinu á Lindargötu, sem tók við þeim. „Þetta eru eins konar deilihjól sem gestum neyðarskýla er frjálst á nýta eftir þörfum og við vonum að eigi eftir að koma að góðum notum,“ segir Birgir. 

Hjólin eru merkt með límmiða sem á stendur: „Þetta reiðhjól er gjöf frá Reiðhjólabændum.“ Auk þess þekkjast þau á appelsínugulri málningu á sætispípu hjólsins. „Við merkjum þau á þennan veg í þeirri von að gestir neyðarskýla og aðrir borgarbúar þekki þau og skili þeim gjarnan aftur á hjólastæðið á Lindargötu. Þá verða þau áfram til afnota fyrir aðra og virka þá eins og nokkurs konar deilihjól sem ekki þarf að greiða sérstaklega fyrir,“ segir Birgir.  

Hjólin þekkjast á appelsínugulri málningu á sætispípu hjólsins

Stuðla að því að fólk verði betur ferðafrjálst í borginni

Hugmyndin varð til í tengslum við vinnu við hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar sem Hjólreiðabændur komu að ásamt fjölda annarra. Henni er ætlað að hjálpa sem flestum að vera sjálfbærir um að komast á milli staða á reiðhjólum. Einn angi af því er að aðstoða þau sem hafa takmarkaðar leiðir til að komast á milli staða í borginni að verða betur ferðafrjáls í borginni. 

„Þetta eru eins konar deilihjól sem gestum neyðarskýla er frjálst á nýta eftir þörfum og við vonum að eigi eftir að koma að góðum notum.“ 

Sú aðgerð að setja upp hjólastand við neyðarskýli sem ætlað er heimilislausu fólki með miklar og flóknar þjónustuþarfir og gefa hjól sem hópurinn getur nýtt sér til að komast ferða sinna var ein af tillögum starfshóps um aðgerðir til að koma í veg fyrir hjólaþjófnað, sem kynnt var í umhverfis- og skipulagsráði í vor. 

Hafa gefið mörg hundruð hjól

Reiðhjólabændur taka við hjólum, gera við þau og gefa þau svo fólki sem hefur ekki efni á að kaupa hjól. Í gegnum tíðina hafa Reiðhjólabændur gefið mörg hundruð reiðhjól en öll vinna þeirra er unnin af sjálfboðaliðum. Meðal annars hafa þeir gefið fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd hjól og hafa sumir þeirra bæst í hóp sjálfboðaliða.

Árlega standa Reiðhjólabændur fyrir átaki, þar sem kallað er eftir gömlum reiðhólum, og hefur aldrei staðið á svörum. Samtökin eru hins vegar alltaf tilbúin að taka við hjólum. Ef þú átt gamalt hjól er um að gera að setja sig í samband við bændurna. Það má gera í gegnum Facebook-síðu þeirra eða með því að heimsækja þá að Sævarhöfða 31 á milli kl 18-21 á mánudagskvöldi. Þá er opið verkstæði hjá þeim og öll velkomnir.