Leggja til níu aðgerðir gegn hjólaþjófnaði

Hjólaborgin

Skoðað var hvað hefur verið gert í öðrum löndum en áhersla hefur almennt verið sett í aðgerðir sem snúa að forvörnum gegn þjófnaði. Mynd/Róbert Reynisson
Hjól inni í skýli.

Skýrsla starfshóps um aðgerðir til að koma í veg fyrir hjólaþjófnað var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar miðvikudaginn 3. apríl. Starfshópurinn leggur til níu aðgerðir sem hægt er að grípa til. Áætlaður kostnaður við aðgerðirnar er gróft metið á bilinu 55 – 90 milljónir. Næsta skref er að rýna aðgerðirnar betur en sumar eru þess eðlis að hægt er að grípa til þeirra strax. Aðrar eru nú þegar komnar í gang og rúmast innan ramma Hjólreiðaáætlunar Reykjavíkur 2021-2025 en ein aðgerð í áætluninni snýr einmitt að því að kanna leiðir til að draga úr þjófnaði.

Starfshópurinn var að störfum frá nóvember fram í miðjan desember 2023 og fékk til samtals fulltrúa frá níu hagaðilum. Með samræðum við hagsmunaaðila hefur orðið til vettvangur tengslamyndunar hjá fulltrúum sem sjá sér hag í því að vinna betur saman að hvers kyns verkefnum sem geta hjálpað til við að draga úr hjólaþjófnaði.

Hópurinn skoðaði hjólaþjófnaði frá ýmsum hliðum, hvar helst sé hægt að grípa til aðgerða, greindi fjölda þjófnaða eftir hverfum og bótagreiðslur tryggingafyrirtækja eftir árum svo eitthvað sé nefnt. Skoðað var hvað hefur verið gert í öðrum löndum en áhersla hefur almennt verið sett í aðgerðir sem snúa að forvörnum gegn þjófnaði.

Hagaðilar sem komu að vinnunni:

  • VoR-teymi Reykjavíkurborgar (Vettvangs- og ráðgjafateymi (VoR) aðstoðar fólk sem er heimilislaust og með vímuefnavanda og geðvanda)
  • Reiðhjólaskrá.is
  • Reiðhjólaverslanir  
  • LHM / Reiðhjólabændur
  • Tollstjóri
  • Neytendasamtökin
  • Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
  • Tryggingafélög
  • Samgöngustofa

Tillögur til úrbóta:

  • Hjólaskýli við íbúðarhúsnæði þar sem ekki eru hjólageymslur 
  • Uppsetning og rekstur á hjólaskápum í miðborginni, fyrir þá sem ekki eiga möguleika á að geyma hjól í geymslum heima hjá sér vegna plássleysis.
  • Fjölgun hjólastæða við stofnanir og fyrirtæki borgarinnar
  • Upplýsingaherferð um rétta notkun á lásum og mikilvægi þeirra til að sporna við þjófnaði. 
  • Vátryggingafélög auki forvarnarfræðslu sína. Upplýsi sína viðskiptavini markvisst um hættur og leiðir til þess að draga úr hættu á þjófnaði.
  • Hjólreiðaskrá.
  • Aðstaða til hjólageymslu hjá heimilislausum og þeim sem eiga við fíknivanda að ræða með því að leggja þeim til hjól að kostnaðarlausu.
  • Eftirlit Tollstjóra með útflutningi á gámum sem innihaldið geta hjól sem flutt eru úr landi. 
  • Reiðhjólaverslanir í samstarfi við aðra aðila skrásetji hjól í gagnagrunn strax við kaup. 

Ekki er um að ræða tæmandi lista aðgerða eða verkefna sem þessar aðgerðir gætu leitt af sér í framhaldinu.