Rampur númer 1300 vígður á leikskólanum Bakkaborg

Börn og starfsfólk Bakkaborgar ásamt borgarstjóra og fulltrúum Römpum upp Ísland og Öryrkjabandalagsins að vígslu lokinni
Börn og starfsfólk Bakkaborgar ásamt borgarstjóra og fulltrúum Römpum upp Ísland og Öryrkjabandalagsins að vígslu lokinni

Þrettán  hundruðasti rampurinn í verkefninu Römpum upp Ísland var vígður á leikskólanum Bakkaborg í Breiðholti í dag. Franek Gniewko Birski, 5 ára drengur á Bakkaborg, notar hjólastól og vígði rampinn. 

Rampurinn á Bakkaborg var gerður í sumar og hefur komið sér afar vel þar sem einn drengur á Bakkaborg, Franek Gniewko Birski 5 ára, notar hjólastól. Franek vígði rampinn með því að klippa á borða og notaði rampinn til að fara út á leiksvæðið. Ágústa Amalía Friðriksdóttir leikskólastjóri sagði að þetta væri afar mikilvægur áfangi sem auðveldaði Franek aðgengi á leikskólalóðinni. Börnin á leikskólanum fylgdust spennt með vígslunni og höfðu föndrað plakat í tilefni dagsins. Þau sungu svo þrjú lög og síðan var gestum boðið upp á köku, kaffi og djús. 

Franek vandaði sig við að klippa á borðann
Franek vandaði sig við að klippa á borðann og vígja nýja rampinn

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, afhenti Franek blómvönd í tilefni vígslunnar og þakkaði Römpum upp Ísland verkefninu fyrir frábært starf. „Það er mikilvægt að tryggja aðgengi allra hér í borginni, eins og aðstandendur Römpum upp Reykjavík hafa gert á undanförnum árum. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hvernig þetta verkefni hefur komið Franek til góða hér á leikskólanum, og vil ég óska öllum hér á Bakkaborg til hamingju með áfangann,” sagði Einar.

 

Borgarstjóri afhenti Franek blóm og óskaði börnunum öllum til hamingju með áfangann
Borgarstjóri afhenti Franek blóm og óskaði honum og öllum börnunum til hamingju með nýja rampinn.

Römpum upp Ísland

Á þessu ári hafa fjöldamargir rampar verið reistir í Reykjavík, má nefna um 100 innganga í leikskólum og 40 við grunnskóla auk innganga í fjölda framhaldsskóla og aðrar opinberar stofnanir. 

Fyrsti rampurinn var tekinn í notkun í maí 2021. Upphaflega var stefnt að því að reisa þúsund rampa, en var svo tekin ákvörðun um að ganga enn lengra og reisa eitt þúsund og fimmhundruð rampa. 

Römpum upp Ísland er nú að störfum á Suðurlandi; Hveragerði, Selfossi, Sólheimum og Vatnsholti og snýr sér síðan aftur að borginni með römpum að Þjóðminjasafninu, Landspítalanum, Félagsstofnun  Stúdenta og Háskóla Íslands en þar verður rampur númer 1500 vígður sem markar lok verkefnisins. 

Að verkefninu koma margir styrktaraðilar, þeirra á meðal: Ueno, Össur, Deloitte, Brandenburg, Aton, Lex lögmannsstofa, BM Vallá, Icelandair, Orkan, ÞG Verk, Sjálfsbjörg, ÖBÍ, Reykjavíkurborg og innviðaráðuneytið. Að auki hefur fjölmargt stuðningsfólk lagt hönd á verkið.