Ragnar Þorsteinsson hefur látið af störfum sem sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar en hann hefur gegnt starfinu frá árinu 2007. Hann var kvaddur á fundi skóla- og frístundaráðs í gær um leið og Helgi Grímsson nýráðinn sviðsstjóri tók formlega við embættinu.
Ragnar var ráðinn fræðslustjóri Reykjavíkurborgar á Menntasviði í byrjun árs 2007, en tók síðan við sameinuðu sviði leikskóla, grunnskóla, frístundamiðstöðva, skólahljómsveita og Námsflokka Reykjavíkur í september 2011. Skóla- og frístundasvið er stærsta fagsvið Reykjavíkurborgar og þjónar rúmlega 20 þúsund börnum og ungmennum og fjölskyldum þeirra. Á sviðinu starfa u.þ.b. 5000 starfsmenn.
Áður en Ragnar varð fræðslustjóri hafði hann gegnt öðrum ábyrgðarstöðum hjá Reykjavíkurborg. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts í tæp tvö ár og þar á undan sem aðstoðarskólastjóri og skólastjóri Breiðholtsskóla í 11 ár. Ragnar hefur því starfað sem stjórnandi hjá Reykjavíkurborg í um 20 ár. Ragnari eru þökkuð vel unnin störf í þágu reykvískra barna og ungmenna og óskað farsældar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni. Um leið er Helgi Grímsson nýr sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs boðinn velkominn til starfa.