Ráðist í hagræðingaraðgerðir og stefnt að sjálfbærni 

Fjármál

Ráðhús Reykjavíkur

Fyrsta fjárhagsáætlun meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, og Viðreisnar gerir ráð fyrir áframhaldandi fullri fjármögnun framlínuþjónustu en aðhaldi í öðrum rekstri borgarinnar. Stefnt er að jákvæðri rekstrarniðurstöðu frá og með árinu 2025. Ný fjármálastefna var lögð fyrir borgarstjórn í dag ásamt fjárhagsáætlun til næstu 5 ára. 

Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á rekstur Reykjavíkurborgar en hröð kólnun í hagkerfinu og á vinnumarkaði leiddi til þess að tekjur borgarinnar voru töluvert undir áætlun árin 2020 og 2021. Vonir stóðu til þess að viðsnúningur yrði kröftugur á árinu 2022 og að hagkerfi heimsins kæmust á sama stað og fyrir faraldur en það hefur ekki gengið að fullu eftir. 

Stríðsátök og hækkandi verðbólga 

Þrátt fyrir að vel hafi gengið að ná atvinnuleysi niður hafa stríðsátök og viðvarandi vandamál í aðfangakeðjum sett hagkerfi heimsins í uppnám. Óvissa ríkir í fjármálakerfi heims og innrás Rússa inn í Úkraínu hefur valdið umtalsverðu óöryggi í Evrópu þar sem orkuverð hefur hækkað gríðarlega. Milljónir manna eru á flótta í álfunni og hafa íbúar Evrópu tekið vel á móti flóttafólki, þar á meðal Reykjavík. 

Verðbólga mælist mun hærri en spáð var, bæði hérlendis sem og í öllum helstu viðskiptalöndum Íslands. Þá hefur óvissa á fjármálamörkuðum aukist mikið sem m.a. hefur endurspeglast í lækkun hlutabréfaverðs og hækkandi ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Ljóst er að áhrif aukinnar verðbólgu verða töluverð fram á næstu ár en samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá 27. júní sl., er ekki gert ráð fyrir að verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð fyrr en árið 2026.    

Veruleg vanfjármögnun frá ríkinu á rekstri málaflokks fatlaðs fólks  

Afkoma á rekstri A-hluta borgarinnar fyrri hluta ársins 2022 var talsvert lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir, einkum vegna verðbólgu og vanfjármögnun á rekstri málaflokks fatlaðs fólks sem hefur farið sívaxandi á umliðnum árum og ógnar nú fjárhagslegri sjálfbærni borgarinnar.  

Útkomuspá gerir ráð fyrir að niðurstaðan verði halli sem nemur 15,3 ma.kr. í ár og á árinu 2023 er áfram gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaðan verði orðin jákvæð frá og með árinu 2024 til samræmis við markmið fjármálastefnu. 

„Án skilnings frá ríkinu á fjármögnun þeirrar þjónustu sem ríkið sjálft gerir kröfu um, þá verður þessi málaflokkur vanfjármagnaður og það er ekki bara grafalvarlegt fyrir þjónustu sveitarfélaga og fjárhag heldur bitnar það helst á þeim sem eiga rétt á þjónustunni og bíða frekari uppbyggingar í honum,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. 

Fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár tekur mið af þessum veruleika. Gætt er aðhalds í framlögum til málaflokkanna og sett fram áætlun um aðgerðir með hliðsjón af markmiði fjármálastefnu um jafnvægi í rekstri og styrkingu veltufjár frá rekstri. Á næstu misserum er ekki gert ráð fyrir ráðningum í störf sem losna nema brýna nauðsyn beri til og leggja borgaryfirvöld áherslu á að sviðsstjórar og aðrir stjórnendur gæti aðhalds í launaútgjöldum og reyni að finna aðrar leiðir en endurráðningar í laus störf. 

Borgarstjóri segir að þrátt fyrir að gætt verði aðhalds í framlögum til málaflokkanna verði sérstaklega passað upp á fulla fjármögnun framlínuþjónustu. „Við drögum saman í fjárfestingaráætlun þótt áfram verði passað upp á að sinna viðhaldsmálum og uppbyggingu innviða í vaxandi borg. Þannig verða áherslur Græna plansins um græna og vaxandi borg sem leggur áherslu á allt í senn; efnahagslega sjálfbærni, umhverfislega sjálfbærni og samfélagslega sjálfbærni áfram leiðarljós borgarinnar.“ 

Fjármálastefna 2023-2027 byggir á grunngildum um sjálfbærni  

Fjármálastefna Reykjavíkurborgar sem er langtíma stefnumörkun um fjárhagslegt heilbrigði borgarinnar er lögð fram samhliða fjárhags- og fimm ára áætlun. Stefnan byggir á grunngildum um sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu, fyrirsjáanleika og gagnsæi, og varðar leið borgarinnar að því að uppfylla fjármálareglur sveitarstjórnarlaga. Fjármálastefnan tekur mið af fjárhagslegri stöðu og ytra efnahagsumhverfi borgarinnar. Markmið og megináherslur í fjármálastjórn A-hluta skv. fjármálastefnu 2023-2027 eru:  

  • Að tryggja með samningum við ríkið fulla fjármögnun á rekstri málaflokks fatlaðs fólks og leiðrétt verði fjármögnun á öðrum lögbundnum verkefnum.  

  • Að ná fram hagræðingu í rekstri og lækkun launaútgjalda í hlutfalli af tekjum.  

  • Að áherslur borgarinnar í húsnæðisuppbyggingu nái fram að ganga.  

  • Að tryggja að viðhaldsáætlun til næstu ára vegna mannvirkja borgarinnar nái fram að ganga. 

  • Að uppbygging á nýjum skólum og leikskólum verði í forgangi til að tryggja framgang stefnu borgarstjórnar um þróun borgarinnar.   

  • Að fjármagnsskipan hjá B-hluta fyrirtækjum Reykjavíkurborgar verði rýnd með hliðsjón af arðsemi eigin fjár og samsetningu eiginfjár, skulda og skuldbindinga. 

Lesa má nánar um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 og fimm ára áætlun 2023-2027 í tilkynningu fjármála- og áhættustýringasviðs til Kauphallar Íslands.