Óskað eftir umsóknum um Torg í biðstöðu

Samgöngur Umhverfi

""

Reykjavíkurborg óskar eftir hugmyndaríkum og áhugasömum einstaklingum eða hópum til að taka þátt í verkefninu Torg í biðstöðu sumarið 2020.

Verkefnið felst í að gera tilraunir með rými í borgarlandinu með það fyrir augum að auðga mannlíf borgarinnar og stuðla að fjölbreyttri notkun almenningsrýma. Áhugasamir eru hvattir til að senda umsóknir með hugmynd að verkefnum í síðasta lagi sunnudaginn 15. mars 2020.

Í ár er sérstök athygli vakin á sumargötum í miðborginni og tækifærum sem þeim fylgja. Þar að auki geta umsækjendur sótt um hvaða svæði í borgarlandinu sem þeir óska, hvort sem það eru torg, græn svæði, stígar eða önnur svæði. Einnig er hægt að senda umsókn um verkefni og óska eftir aðstoð verkefnastjóra Torg í biðstöðu að finna því heppilegt svæði.

Verkefnin geta verið af ýmsum toga; innsetningar og/eða endurhönnun svæða, viðburðahald, markaðir, leikir eða hvað eina sem talið er styrkja mannlíf og hvetja til aukinnar notkunar á svæðinu. Hópar og einstaklingar sem taka að sér verkefni finna tímabundnar og skemmtilegar lausnir á sínu svæði og kanna möguleika þess með tímabundnum tilraunum. Um leið er reynt að vekja íbúa og aðra hagsmunaaðila til umhugsunar um sitt nánasta umhverfi og virkja þá til að taka þátt í að þróa svæðin.

Að jafnaði stendur verkefnið yfir frá maí til september ár hvert. Nánari upplýsingar um verkefnið Torg í biðstöðu.

Umsóknarfrestur til 15. mars

Umsóknarfrestur verkefna fyrir sumarið 2020 er til og með sunnudeginum 15. mars og skal senda umsóknir á netfangið gongugotur@reykjavik.is og merkja með efnislínunni (subject) „Umsókn um biðsvæði“. Umsóknir skulu vera í viðhengi með póstinum þar sem fram kemur:

  • Ítarleg lýsing á verkefninu í texta og myndum/ teikningum
  • Staðsetning verkefnisins ef sótt er um tiltekið svæði
  • Verk- og tímaáætlun
  • Áætlaður efniskostnaður
  • Ferilskrá allra umsækjenda með fullu nafni, kennitölu, netfangi og símanúmeri

Stefnt er að því öllum umsóknum verði svarað fyrir 29. mars.

Veggspjald fyrir Torg í biðstöðu 2020 

Facebook síða Torg í biðstöðu