Opnað fyrir umsóknir í loftslagssjóð ungs fólks

Loftslagsmál

 Umsóknarfrestur er til og með 25. júní og gert er ráð fyrir að úthlutun fari fram í byrjun september. Mynd/Arctic Images - Ragnar Th.
Hús og götur í Reykjavík. Yfirlitsmynd úr lofti.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í nýjan loftslagssjóð ungs fólks í Reykjavík. Markmið sjóðsins er að virkja ungmenni á aldrinum 15-24 ára í leit að lausnum á loftslagsvandanum og styrkja ný verkefni sem vinna gegn loftslagsvánni. Umsóknarfrestur er til og með 25. júní og gert er ráð fyrir að úthlutun fari fram í byrjun september. Sjóðurinn er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg Philanthropies.

Fjölbreytt verkefni geta hlotið styrk eins og hakkaþon, vitundarvakningarherferðir eða endurheimt vistkerfa. Reykvísk ungmenni og samtök sem starfa með þeim eru hvött til að leggja höfuðið í bleyti, koma fram með ný verkefni sem þau vilja hrinda í framkvæmd og senda inn umsókn. Styrkir geta að hámarki numið 690.000 krónum og er heildarupphæð styrkja um 5.600.000 krónur.

 

Við hlökkum til að sjá spennandi verkefni verða að veruleika sem virkja frumkvæði, hugmyndir og kraft ungs fólks og styðja borgina í því að við náum metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum okkar

Þátttaka ungs fólks skiptir máli

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, sagði að borgin gæti haft mikið gagn af því að styðja ungt fólk til góðra grænna verkefna, þegar tilkynnt var um stofnun sjóðsins.

„Við hlökkum til að sjá spennandi verkefni verða að veruleika sem virkja frumkvæði, hugmyndir og kraft ungs fólks og styðja borgina í því að við náum metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum okkar,“ segir hann nú þegar opnað er fyrir umsóknir.

Til þess að finna lausnir við loftslagsvandanum þurfa öll að leggjast á eitt og koma fram með nýjar og skapandi hugmyndir úr ólíkum áttum. Þátttaka ungs fólks skiptir máli og en samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum eru 84% ungmenna áhyggjufull yfir loftslagsvánni.