Opnaður hefur verið samráðsvefur þar sem óskað er eftir hugmyndum og skoðunum borgarbúa sem geta með þátttöku sinni haft áhrif á heildstæða stefnumótun um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0-6 ára og hvernig styðja megi betur við börn og barnafjölskyldur. Markmiðið er að fá sjónarmið og hugmyndir þeirra sem nýta þjónustuna.
Stýrihópur á vegum Reykjavíkurborgar vinnur að því að móta heildstæða stefnu um umhverfi og aðstæður barna í þessum aldurshópi. Mikilvægur hluti af þeirri vinnu er víðtækt samráð við forsjáraðila og aðra hagsmunaaðila um lausnir og tækifæri til framtíðar.
Þín þátttaka skiptir máli
Á samráðsvefnum, sem var opnaður í dag, gefst borgarbúum tækifæri til að taka þátt í mótun þessarar mikilvægu stefnu. Hægt verður að veita umsagnir til 15. janúar 2024.
„Mikilvægt er að kalla fram ólík sjónarmið um hvernig best sé að þjónusta börn á aldrinum 0-6 ára,“ segir Magnea Gná Jóhannsdóttir, formaður stýrihópsins. „Einnig er mikilvægt að hafa í huga að ein lausn hentar ekki öllum. Horfa þarf því til fjölbreyttra lausna sem koma til móts við ólíkar þarfir og veita fólki valfrelsi ásamt því að huga ávallt að velferð barna. Það er því afar ánægjulegt að geta farið í opið samráð um þjónustu við börn í þessum aldurshópi enda skiptir máli að raddir sem flestra heyrist í slíkri vinnu. Ég hvet þig til þess að taka þátt í samráðinu og með því hafa áhrif á stefnumótun um umhverfi og aðstæður 0-6 ára barna í Reykjavík.“