Opið fyrir umsóknir í hverfissjóð Reykjavíkurborgar

Mannlíf Umhverfi

Yfirlitsmynd yfir Sundahverfi í Reykjavík.

Búið er að opna fyrir umsóknir í hverfissjóð Reykjavíkurborgar og er umsóknarfresturinn til 15. október næstkomandi.

Tilgangur hverfissjóðs er að efla félagsauð, samstöðu og samvinnu íbúa í hverfum borgarinnar, stuðla að fegrun hverfa, auka öryggi og auðga mannlíf með fjölbreyttum hætti með mið af þörfum íbúa.

Sjóðurinn styrkir þau sem vilja leggja sitt af mörkum og standa fyrir hverfistengdum verkefnum og/eða viðburðum. Lögð er áhersla á að styrkja verkefni sem nýtast sem flestum íbúum hverfanna, stuðla að þátttöku fjölbreyttra hópa í mannlífi þeirra eða miða að fegrun eða uppbyggingu svæða sem nýtast stórum hluta íbúa.

Um er að ræða seinni úthlutun ársins en fyrri úthlutun fór fram í vor. Með því að hafa umsóknartímabil tvisvar á ári þykir jafnræði aukast á milli umsækjenda hvað varðar úthlutun úr sjóðnum yfir árið.

Upplýsingar um hverfissjóð og umsóknareyðublað.