Opið fyrir styrki vegna náms, verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks

Velferð

""

Það er búið að opna fyrir umsóknir um styrk vegna námskostnaðar, verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks. Umsóknarfrestur er til 13. nóvember nk. en umsóknum er skilað á vef borgarinnar eða til þjónustumiðstöðva.

Heimilt er að veita fötluðu fólki aðstoð vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar. Styrkurinn felur í sér námsstyrk til greiðslu útlagðs kostnaðar vegna námskeiðs- og skólagjalda og námsgagna sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga. Jafnframt stendur til boða styrkur vegna verkfæra- og tækjakaupa eða annarrar fyrirgreiðslu  vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni.

Uppfylla þarf eftirfarandi skilyrði:

  • búa við andlega eða líkamlega fötlun
  • vera á aldrinum 18-67 ára
  • eiga lögheimili á þjónustusvæði Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar
  • hafa varanlega 75% örorku

Úthlutun styrkja byggist á því fjármagni sem borgarráð ákveður hverju sinni. Úthlutanir fara fram einu sinni á ári og taka úthlutanir mið af fjárhagsáætlun og fjölda umsókna. Að jafnaði getur samþykktur styrkur til umsækjanda verið að hámarki 50.000 krónur í hverri úthlutun.

Velferðarsvið annast afgreiðslu styrkja og hvetur fólk til þess að skoða rétt sinn til umsókna. Umsóknareyðublað má nálgast á vef Reykjavíkurborgar.  Með umsókn á að vera greinargerð, ljósrit af örorkuskírteini eða vottorð fagaðila um staðfestingu á fötlun, námsvottorð, staðfesting á nauðsyn námsgagna og sundurliðun á kostnaði við þau og frumrit af kvittunum, eftir því sem við á.

Umsóknum skal skila á vef borgarinnar eða til þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar eigi síðar en 13. nóvember 2016.

Nánari upplýsingar veitir þjónustumiðstöðin í þínu hverfi:                                             

·        Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts, Hraunbæ 115, s. 411 1200

·        Þjónustumiðstöð Breiðholts, Álfabakka 12, s. 411 1300

·        Þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness, Miðgarður, Gylfaflöt 5, s. 411 1400

·        Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis, Efstaleiti 1, s. 411 1500

·        Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Laugavegi 77, s. 411 1600

·        Þjónustuver Reykjavíkurborgar s. 411 1111

Reglur Reykjavíkurborgar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks