Öll velkomin þegar kveikt verður á jólakettinum

Mannlíf Menning og listir

Ragnar Th. Sigurðsson
Jólakötturinn á Lækjartorgi. Heilmynd í myrkri, yfir honum er búið að mynda hjarta úr ljósum, væntanlega gert með stjörnuljósi.

Laugardaginn 18. nóvember klukkan 17 verður kveikt á ljósunum á jólakettinum á Lækjartorgi. Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar kveikir ljósin. Lúðrasveitin Svanur flytur nokkur jólalög og hjónin Grýla og Leppalúði verða á staðnum. Öll eru hjartanlega velkomin!

Jólakötturinn á Lækjartorgi er um fimm metrar á hæð, sex metrar á breidd og lýstur upp með 6500 led ljósum. Hann var settur upp í fyrsta sinn árið 2018 og hefur ávallt vakið mikla athygli á torginu. Hönnun jólakattarins er samstarf Reykjavíkurborgar, MK-illumination í Austurríki og fyrirtækisins Garðlist. Hann mun standa á Lækjartorgi fram að þrettándanum. 

Jólakötturinn er ein af best þekktu íslensku jólavættunum. Hann er gríðarstór, eins og segir í kvæði Jóhannesar úr Kötlum um þessa óvætt sem er sögð leggja sér þau til munns sem ekki fá nýja flík fyrir jólin. Hann minnir á svipaðar dýravættir á öðrum Norðurlöndum og á ættir að rekja til þeirra, svo sem jólahafursins sem margir Íslendingar þekkja líka.

 

Þið kannist við jólaköttinn,

– sá köttur var gríðarstór.

Fólk vissi ekki hvaðan hann kom

eða hvert hann fór.

Hann glennti upp glyrnurnar sínar,

glóandi báðar tvær.

– Það var ekki heiglum hent

að horfa í þær. 

Sjáumst á Lækjartorgi, laugardaginn 18. nóvember, klukkan 17.

Jólakötturinn á Lækjartorgi, nærmynd af andlitinu á honum í myrkri.

Myndir: Ragnar Th. Sigurðsson