Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Gunnar Gunnarsson forstjóri Perlu Norðursins og Inga Dóra Hrólfsdóttir framkvæmdastjóri Veitna undirrituðu samning um kaup Reykjavíkurborgar á tveimur hitaveitutönkum við Perluna í dag.
Annar tankurinn er nú þegar nýttur undir íshelli og glæsilega sýningu um jöklana á Íslandi. Hinn verður innréttaður í sumar fyrir stjörnuver sem mun nýta nýjustu tækni til að sýna himingeiminn sem Perla Norðursins mun opna í haust og er vinna við það þegar hafin.
Annars vegar var undirritaður samningur um kaup Reykjavíkurborgar á tönkunum og hins vegar samningur við Perlu Norðursins um leigu á húsnæðinu sem bætist við ört stækkandi sýningarrými fyrirtækisins í Perlunni.
Nýja stjörnuverið í hitaveitutankinum er hluti af umfangsmiklum endurbótum á Perlunni sem hefur fengið nýtt hlutverk sem náttúrusafn og miðstöð upplifunar í Reykjavík.
Í svona stjörnuveri er boðið upp á sýndarheim þar sem áhorfendur sitja inni í hvelfingu og fræðast um stjörnur, reikistjörnur, tunglið og önnur fyrirbæri alheimsins. Í stjörnuveri Perlunnar munu sex stafrænir skjávarpar varpa 8K mynd í bestu fáanlegu gæðum á hvelfinguna og hljóðkerfi af fullkomnustu gerð opna gestum nýja sýn á norðurljós og náttúru Íslands.
Áhersla er lögð á hughrif við hönnun stjörnuversins. Gestir þess munu upplifa norðurljósin í forsal áður en þeir ganga inn í sjálft stjörnuverið. Stjörnuver Perlunnar tekur 150 manns í sæti og eru stólar sérstaklega gerðir til að tryggja þægindi gesta.
Fyrsta sýningin sem Perla Norðursins, leigutaki Perlunnar, áætlar að sýna í nýja stjörnuverinu sýnir náttúruperlur Íslands á einstakan hátt. Sýningin er sérstaklega samin og framleidd af Perlunni og hinu heimsþekkta Bowen Productions, sem sérhæfir sig í myndum fyrir stjörnuver. Önnur slík sýning um undraheim norðurljósanna verður frumsýnd á haustmánuðum.
Bráðlega, eða í byrjun maí, opnar annar áfangi náttúrusýningar í Perlunni undir nafninu Undur íslenskrar náttúru. Þar verður hægt að upplifa eldgos og jarðskjálfta og sjá syndandi hvali undir gólfinu. Níu metra há eftirmynd af Látrabjargi klæðir nú þegar einn af veggjum hitaveitutankanna í Perlunni sem er nú óðum að fá nýtt hlutverk sem sýningarrými.
Náttúruminjasafn Íslands mun síðan opna sýningu um Vatn í náttúru Íslands í desember.
Hluti af samningnum við Veitur ohf nú er að heimila fyrirtækinu að reisa nýjan tank undir heita vatnið í Öskjuhlíð sem er aðeins fjær Perlunni og hennar fjölmörgu gestum en þeim fer ört fjölgandi með hinum frábæru sýningum sem eru í boði þar.
Þess má geta að grunnskólarnir í Reykjavík fá ókeypis inn í Perluna fyrir tvo árganga á hverju ári en þar geta reykvísk börn fræðst um náttúru Íslands og í sýningarrými á heimsmælikvarða.
Tilkoma sýningarrýmisins í Perlunni hefur snúið rekstri hennar algjörlega við og hefur Reykjavíkurborg nú umtalsverðar tekjur af byggingunni í stað kostnaðar áður upp á um 150 milljónir króna á ári.