No translated content text
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag skipulagsbreytingar á starfsemi tveggja fagsviða og innleiðingu á verkefninu Betri borg fyrir börn í öllum borgarhlutum. Verkefnið hefur verið í þróun Breiðholti frá því í ársbyrjun 2020 en það nær til breytinga á þjónustu velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Breytingarnar taka gildi þann 1. janúar 2022.
Tilgangur verkefnisins er:
- Að skipuleggja þjónustu Reykjavíkurborgar við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra þannig að hún nái enn betur að mæta þörfum þeirra til farsældar. Samhæfa eins og kostur er alla skóla-, frístunda- og velferðarþjónustu í borgarhlutanum og auka þverfaglega samvinnu,
- t.d. við heilbrigðisþjónustu.
- Að öll skóla- og frístundaþjónusta sé heiltæk, þ.e. varði heildarþjónustuþörf leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva frá Reykjavíkurborg, þ.e. stjórnendur, starfsfólk, börn og foreldra.
- Að styrkja samlegð og samfellu þjónustu við skóla, félagsmiðstöðvar og frístundaheimili þannig að þjónustan stuðli að auknu samstarfi og um leið auknum gæðum í starfi með börnum á leik- og grunnskólaaldri.
- Auka dreifstýringu í leikskóla- og grunnskólastarfi þannig að hún verði áþekk því sem nú er í frístundastarfi svo að stjórnendur leik- og grunnskóla og skólahljómsveita finni fyrir meiri nálægð við stjórnendur og ráðgjafa Reykjavíkurborgar.
- Að mannauður og fjármagn í öllu skóla-, frístunda- og velferðarstarfi nýtist sem best. Með auknu samstarfi og samhæfingu milli stofnana opnast möguleikar á að samnýta mannauð, aðstöðu og fjármagn í ríkari mæli.
Börn og fjölskyldur
Samkvæmt breyttu skipuriti þjónustumiðstöðva verður til ný deild barna og fjölskyldna í fjórum borgarhlutum. Henni er ætlað að veita heildstæða og samþætta þjónustu við börn og fjölskyldur þar sem svokölluð farsældarlög nr. 86/2021 verða höfð að leiðarljósi. Sérstök áhersla verður á þjónustu við langveik og fötluð börn með fjölþættar þjónustuþarfir, börn og fjölskyldur sem þurfa á félagslegum stuðningi að halda og sálfræðiþjónustu. Innan deildar barna og fjölskyldna starfa ýmsir sérfræðingar t.d. félagsráðgjafar, þroskaþjálfar og sálfræðingar.
Skóla- og frístundaþjónusta
Samþykkt borgarráðs felur í sér að sú kennslu- og sérkennsluráðgjöf, hegðunarráðgjöf, þjónusta talmeinafræðinga og þau málefni daggæslu sem hafa heyrt undir velferðarsvið færast í nýja skóla- og frístundaþjónustu í þjónustumiðstöðinni. Einnig verður það verkefni skóla- og frístundaþjónustu að skipuleggja og stjórna skóla- og frístundastarfinu, veita stjórnendum og starfsfólki stuðning og ráðgjöf varðandi almenna starfs- og kennsluhætti, bera ábyrgð á meðferð einstaklingasmála, sérkennslu, talþjálfun, atferlisþjálfun og stuðningi. Einnig kemur þjónustan að styrkingu félagsauðs og málefnum dagforeldra. Skrifstofur frístundamiðstöðva Tjarnarinnar, Kringlumýrar og Gufunesbæjar og Ársels verða hluti af skóla- og frístundaþjónustu í hverjum borgarhluta.
Nafnasamkeppni og innleiðing
Starfsemi skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í hverjum borgarhluta sameinast í húsnæði þar sem þjónustumiðstöðvar eru til húsa. Þar verður einnig mannauðs- og rekstrarteymi sem sinnir mannauðs- og fjármálaráðgjöf við starfseiningar sviðanna í hverfinu. Til skoðunar er hvort hugtakið þjónustumiðstöð lýsi nægilega vel starfseminni eða hvort endurskoða þurfi heiti þeirra. Af þeim ástæðum er lagt til að haldin verði nafnasamkeppni á þjónustumiðstöðvum borgarinnar og munu niðurstöður liggja fyrir í janúar 2022 þegar þessar skipulagsbreytingar taka gildi.
Hér má lesa tillöguna og fylgigögn hennar.