Nýtt torg við Tryggvagötu

Sigurður Ólafur Sigurðsson
Manneskja á gangi í Tryggvagötu.

Reykvíkingar hafa eignast nýtt almenningsrými og samastað en með endurgerð Tryggvagötu hefur orðið til nýtt torg við Tollhúsið þar sem mósaíklistaverk Gerðar Helgadóttur fær að njóta sín. Tryggvagata á milli Pósthússtrætis og Grófarinnar hefur nú tekið stakkaskiptum með hönnun sem leggur áherslu á fólk og blómstrandi mannlíf.  Framkvæmdir við Tryggvagötu eru hluti af því að gera borgina okkar betri, mannvænni, fallegri og aðgengilegri fyrir virka ferðamáta.

Sköpuð falleg umgjörð fyrir listaverkið

„Þarna er veggur sem snýr í suður og nýtur sólar,“ segir Áslaug Traustadóttir landslagsarkitekt hjá Landmótun sem var með umsjón með hönnun torgsins. Hún líkir aðstæðunum við Austurvöll þar sem gjarnan er setið úti á veitingastöðum í sól og skjóli frá norðanáttinni.

Áslaug segir mósaíkmynd Gerðar einstaka en hún hafi hingað til verið falin og fái nú að njóta sín miklu betur. Það hafi hins vegar verið áskorun að hanna torg sem myndi ekki taka athygli frá þessu fallega verki og því hafi verið ákveðið að hafa þarna steypt torg fremur en hellulagt. „Það er flísalögn í kringum listaverkið með íslensku gabbrói sem er mjög sérstakt. Markmiðið er að stela ekki athygli frá verkinu með því að koma með nýtt mynstur þarna inn með hellulögn. Góð leið til að gera það var að steypa torgið.“

Ljósum steinum blandað í steypuna

Steypan er lýst með ákveðnum aðferðum. „Ljóst gólf varpar birtu þarna upp,“ segir Áslaug og útskýrir að vandamál lýsingarhönnuða í götum á Íslandi séu gjarnan dökk gólf sem hafi áhrif á endurvarp. „Þess vegna er ljósum steinum blandað í steypuna til að auka endurvarp. Við völdum í raun smá bita úr verkinu en það eru brúnir, drappaðir og ljósir litir í því og svo fundum við steintegundir í sömu tónum.“

Annar litur sem er áberandi í mósaíkverkinu er blár sem stýrði valinu á litnum á fjórum ljósastaurum sem lýsa upp torgið. „Þannig verður útkoman meiri heild,“ segir Áslaug.

Sérstaka kastara þurfti til að lýsa upp verkið en lýsingarhönnuður var Sölvi Kristjánsson frá Lisku. Kastararnir þurftu að endurkasta öllum litum í litrófinu til að gera verkinu góð skil eftir að rökkva tekur. Áslaug segir að kastararnir sem lýsi upp gönguleiðina séu hins vegar með mýkri og gulari birtu.

Þokuskúlptúr býður upp á leik

Þokuskúlptúr mun setja svip sinn á torgið. „Innblásturinn er hafið því listaverkið er sjávarmynd,“ segir Áslaug. Hugmyndin var í fyrstu að notast við vatn en það þróaðist áfram og úr varð að þarna kæmu þokustútar. Áslaug sá þokuskúlptúr sem þennan í Lyon í Frakklandi en það er líka þekkt að nota svona þokustúta á norðlægum slóðum, til dæmis í Svíþjóð. Úðinn fer ekki hátt upp og eru þetta örfínir dropar sem þarna koma út. Fyrir utan að bjóða upp á leik skapar þetta ákveðna dulúð og stemningu. Slökkt verður á þokuskúlptúrnum á veturna og á nóttunni á sumrin með tímastilli.

Góð hönnun er samtal

Takmarkið var að hafa götuna græna og sett voru niður eins mörg tré og hægt var. „Það eru nokkrar tegundir þarna, reynir, hlynur og elri. Við fengum eins stór tré og við gátum. Það var ekki hægt að setja niður tré fyrir framan listaverkið en við náum breiðri línu með götugögnum og trjám sunnan megin við götuna,“ segir Áslaug og bætir við að hún hafi átt gott samstarf við borgarhönnun hjá Reykjavíkurborg varðandi endurgerð Tryggvagötu. „Góð hönnun er samtal,“ segir hún.

Það var heilmikil tækileg áskorun sem margir framkvæmdaaðilar urðu að koma að til að steypa svona stórt torg en nú ríkir tilhlökkun hjá Áslaugu að sjá þetta nýja almenningsrými verða til.

Birtir mikið yfir götunni

Rebekka Guðmundsdóttir borgarhönnuður hjá Reykjavíkurborg er líka spennt fyrir nýja torginu. „Ég held að þetta torg eigi eftir að nýtast mjög vel því það er sólríkt fram eftir degi. Það er vítt á milli veggja. Sólin nær að skína í gegnum Pósthússtræti og inn á svæðið,“ segir hún.

Það verður langur bekkur meðfram öllu Tollhúsinu þar sem hægt verður að tylla sér. „Gatan er hönnuð sem ein heild, vegg í vegg, en það er akvegur þarna í gegn. Torgið er ekki lokað af en þarna er komið dvalarsvæði þar sem sólin nær að skína og þá færðu ástæðu til að setjast niður. Listaverkið fær að njóta sín vel núna og það kallar á mann. Það sást áður ekki vel fyrir bílastæðum og gatan var miklu drungalegri. Það er búið að birta svo mikið yfir götunni,“ segir hún og verður spennandi að sjá hvernig gestir og gangandi taka þessu nýja svæði, ekki síst þegar vora tekur.

Viðburðir og veitingar

Langi bekkurinn minnir Rebekku á Lund í Svíþjóð þar sem hún og annar borgarhönnuður, Edda Ívarsdóttir, stunduðu nám. „Þar var langur bekkur meðfram suðurhlið dómkirkjunnar sem var alltaf fullur af fólki,“ segir hún en aðstæðurnar við Tryggvagötu voru líkar þeim í Lundi og lofa því góðu.

Minni bekkir verða síðan nær götunni og einnig verða færanlegir kollar á torginu, sem eru hannaðir af borgarhönnun Reykjavíkurborgar. „Fólk getur setið eins og það vill og búið til eigið dvalarsvæði á torginu.“

Svæðið sunnan megin við götuna hefur líka breyst mikið eftir framkvæmdirnar. „Það er líka breiður gangflötur sunnan megin við götuna sem opnar á möguleika á svæði fyrir útiveitingar,“ segir hún. Torgsvæðið við Tollhúsið býður síðan upp á ýmsa möguleika á viðburðum og fyrir veitingar með tenglum fyrir rafmagn sem nýtast núna fyrir jólalýsingu.

Torgið er nú opið öllum, búið er að fjarlægja framkvæmdagirðingar en götugögn eru ekki öll komin á staðinn til að fullkomna myndina. Bekkirnir eru ekki enn komnir á sinn stað en verða settir niður á næstunni. Torgið er engu að síður komið í hátíðarbúning fyrir gesti og gangandi til að njóta því búið er að skreyta fallegt jólatré sem nýtur sín vel á staðnum.

Flottasta gatan í miðborginni

Rebekku finnst Tryggvagatan vera orðin flottasta gatan í miðborginni og er ánægð með þessa umbreytingu. „Gatan er hönnuð þannig að umferðin verður hægari, það er núna miklu meira pláss fyrir fólk og mannlíf. Það er komið dvalarsvæði og gatan er eins gróðursæl og best getur verið í götu í borgarmiðuðu umhverfi.“

Gaman er að ljúka þessari grein á ljóðlínum sem verða settar niður í torgið innan tíðar en ljóðið eftir Sigurð Pálsson var valið af Bókmenntaborginni Reykjavík:

Einhver hafði blandað saman

ljósi og skuggum

og dreift yfir borgina,

þokukenndri birtu

sem leysti upp öll landamæri.

Allar leiðir voru greiðar.

Tenglar