Nýtt menningar- og íþróttasvið borgarinnar

Stjórnsýsla

Anna Karen Arnardóttir, María Rut Reynisdóttir, Margrét Grétarsdóttir, Eiríkur Björn Björgvinsson og Steinþór Einarsson.
Stjórnendur menningar- og íþróttasviðs stilla sér upp í röð fyrir framan Ráðhúsið. Anna Karen Arnardóttir fjármálastjóri, María Rut Reynisdóttir skrifstofustjóri menningarborgar, Margrét Grétarsdóttir mannauðsstjóri, Eiríkur Björn Björgvinsson sviðsstjóri menningar- og íþróttasviðs, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri þróunar og nýsköpunar. Kalt úti og þau eru í vetraryfirhöfnum.

Íþrótta- og tómstundasvið (ÍTR) og menningar- og ferðamálasvið (MOF) hafa nú sameinast í eitt svið undir stjórn sameiginlegs sviðsstjóra. Sviðið hefur hlotið nafnið menningar- og íþróttasvið til að byrja með og hefur þegar tekið til starfa.

Sameiningin var samþykkt á fundi borgarráðs 21. júlí 2022 og er hlutverk hins nýja sviðs meðal annars að fylgja eftir stefnu Reykjavíkurborgar í menningar- og íþróttamálum og hafa yfirumsjón með söfnum Reykjavíkur, íþrótta- og tómstundamannvirkjum borgarinnar, markaðs- og viðburðamálum og verkefnum Menningarborgar. Sviðið hefur jafnframt, fyrir hönd Reykjavíkurborgar, umsjón með samskiptum vegna rekstrarsamninga og styrkja í menningar- íþrótta- og tómstundamálum og er borgaryfirvöldum til faglegrar ráðgjafar í þeim málaflokkum sem undir sviðið heyra. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2023 eru stöðugildi 507 en sviðið hefur um 800 starfsmenn á ársgrundvelli. Áætlaður rekstrarkostnaður sviðsins á árinu 2023 er um 17,8 milljarðar króna. 

Fyrsta skrefið í auknu samstarfi MOF og ÍTR var stigið í skipulagsbreytingum árið 2018 þegar  menningar- og ferðamálaráð og íþrótta- og tómstundaráð voru sameinuð í menningar-, íþrótta- og tómstundaráð. 

Nýr sviðsstjóri og starfsfólk í nýjum hlutverkum

Eiríkur Björn Björgvinsson tók við starfi sviðsstjóra sviðsins fyrsta janúar síðastliðinn en hann er menntaður á sviði kennslu, stjórnunar og opinberrar stjórnsýslu og hefur undanfarin ár starfað sem sviðsstjóri fræðslu- og menningarmála og áður sem bæjarstjóri. 

Steinþór Einarsson skrifstofustjóri þróunar og nýsköpunar, Margrét Grétarsdóttir mannauðsstjóri, Anna Karen Arnardóttir fjármálastjóri og María Rut Reynisdóttir skrifstofustjóri Menningarborgar tóku einnig við nýjum hlutverkum á skrifstofu hins nýja sviðs um áramótin. Anna Karen leysir Andrés B. Andreasen fjármálastjóra sviðsins af til að byrja með á meðan Andrés er í námsleyfi.