Nýtt erindisbréf fyrir fagsvið ráðgjafar

Stjórnsýsla

Ráðhús Reykjavíkur.

Ráðgjafi borgarbúa og innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar lögðu nýtt erindisbréf fagsviðs ráðgjafar fyrir endurskoðunarnefnd. Nefndin staðfesti erindisbréfið á fundi sínum í vikunni.

Helstu breytingar frá gildandi erindisbréfi eru : 

Fagsviði ráðgjafar er skipt upp í fagsvið ráðgjafar og fagsvið persónuverndar.

Fagsviði ráðgjafar er ekki lengur gert að aðstoða við að semja kærur fyrir borgarbúa þegar þeir eiga í samskiptum við Reykjavíkurborg.

Minni formlegar kröfur eru gerðar til kvartana borgarbúa þegar þeir bera erindi sín undir fagsvið ráðgjafar, enda er það í samræmi við stjórnsýslulög að fagsviðið verði að tilkynna borgarbúa hvaða gögn skorti og eftir atvikum leiðbeina honum um að tilgreina kröfur sínar betur.

Fagsvið ráðgjafar tekur ekki lengur til meðferðar einstaka mál þannig að þeim ljúki með áliti fagsviðsins. Er það í samræmi við rýniviðtal við umboðsmann Alþingis en þar kom fram að "umboðsmaður borgarbúa sé ekki lögbundið hlutverk. Mikilvægt sé að tryggja skilvirkni og koma í veg fyrir skörun á hlutverkum og tafir í ferli mála vegna aðkomu slíkrar einingar."

Fagsvið ráðgjafar hefur áfram heimildir til að bregðast við með frumkvæðisathugunum eða beina tilmælum til fag- og kjarnasviða Reykjavíkurborgar um úrbætur á málsmeðferð og/eða starfsemi sinni. Þrátt fyrir að Reykjavíkurborg sé ekki bundin af tilmælum fagsviðsins þá upplýsir fagsvið ráðgjafar innri endurskoðanda, viðeigandi fagráð eða borgarstjórn fari fagsvið og/eða kjarnasvið borgarinnar ekki eftir tilmælum eða ráðleggingum fagsviðs ráðgjafar.

Breytt er orðalagi um að sviðið taki ekki til meðferðar kvartanir um starfsmannamál í stað starfsmannastefnu. Hér er ekki um efnislega breytingu að ræða.