Nýsköpun hjá Reykjavíkurborg

Ónafngreindur hópur fólks við borð

Nýsköpunarmenning verður til umfjöllunar á opnum fundi sem Reykjavíkurborg býður til á þriðjudag kl. 13:00–14:00. Þröstur Sigurðsson, skrifstofustjóri Stafrænnar Reykjavíkur á þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar fjallar um nýsköpun í stafrænni vegferð borgarinnar. Þröstur ræðir sérstaklega um ýmsar hliðar vinnustaðamenningar og hvernig hún getur stutt við stafræna vegferð.  

Viðburðurinn er hluti af Nýsköpunarvikunni sem stendur 16.–20. maí. Reykjavíkurborg er bæði þátttakandi og bakhjarl Nýsköpunarvikunnar í ár, en með þátttöku sinni vill borgin efla nýsköpunarmenningu í starfsemi sinni bæði innan stjórnsýslunnar sem utan. Slíkt hugarfar rímar vel við nýlega samþykkta atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkur, en hún ber yfirskriftina Nýsköpun alls staðar.  

Á þriðjudag stendur Reykjavíkurborg einnig fyrir viðburði fyrir valinn hóp starfsmanna sem tilnefndur var víða úr borgarkerfinu til að taka þátt í Kúltúrhakki í þeim tilgangi að skoða vinnustaðamenningu borgarinnar og hvaða leiðir megi fara til að efla nýsköpun í þjónustu og rekstri borgarinnar.  

Tengt efni: