Nýr ungbarnaleikskóli í Bríetartúni

Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð samþykkti í dag að hefja formlegan undirbúning að starfsemi nýs leikskóla að Bríetartúni 11.

Miðað er við að nýi leikskólinn verði fjögurra deilda ungbarnaleikskóli fyrir 60 börn á aldrinum 12 mánaða til þriggja ára. Hann mun taka til starfa fyrir lok þessa árs. 

Í greinargerð með tillögu Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna segir m.a.;  

Borgarstjórn samþykkti 18. nóvember 2018 að ráðast í aðgerðaáætlunina Brúum bilið sem felur í sér að fjölga leikskólaplássum í öllum borgarhlutum svo bjóða megi börnum allt frá 12 mánaða aldri leikskólavist. Í upphaflegri áætlun var stefnt að því að fjölga leikskólarýmum um 700-750 á árunum 2019-2023 með byggingu nýrra leikskóla, viðbyggingum og/eða fjölgun leikskóladeilda við starfandi leikskóla, einkum þar sem eftirspurn eftir leikskólarýmum er mikil. Nú er verið að endurskoða þá áætlun og er stefnt að því að rýmum fjölgi talsvert meira á tímabilinu. Endurskoðunin tekur m.a. mið af Græna planinu sem borgarstjórn hefur samþykkt og felur í sér að litið er til þess að nýta húsnæði í borgarlandinu meðfram því að byggja nýtt. Tillagan um ungbarnaleikskóla í Bríetartúni er hluti af þessari endurskoðun, nýtt verkefni sem felur í sér að borgin tekur á leigu húsnæði miðsvæðis í hverfi þar sem mikil spurn er eftir leikskólarýmum.

Í leikskólanum við Bríetartún verða fjórar deildir, fullbúið framreiðslueldhús, starfsmannaaðstaða og útileiksvæði. Húsnæðið verður afhent í síðasta lagi 1. nóvember 2021. Það verður innréttað sérstaklega fyrir umönnun ungra barna.  

Sá möguleiki er í skoðun að sami stjórnandi verði yfir nýja leikskólanum í Bríetartúni og fyrirhuguðum ungbarnaleikskóla við Hallgerðargötu 1, á Kirkjusandi, sem áformað er að taka í notkun á næsta ári.