Nýjar leiðbeiningar fyrir hönnun reiðhjólastíga

Samgöngur

""

Leiðbeiningar sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins og Vegagerðarinnar fyrir hönnun reiðhjólastíga hafa verið gefnar út. 
 

Fyrstu íslensku leiðbeiningarnar á hönnun fyrir reiðhjólastíga voru gefnar út árið 2010 fyrir Reykjavíkurborg. í Maí árið 2017 setti starfshópur á vegum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) af stað vinnu við uppfærslu á þeim leiðbeiningum sem yrðu síðan gefnar út í nafni allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ásamt Vegagerðinni sem einnig kom að þeirri vinnu fyrir hönd annarra sveitarfélaga á landinu.

Hafa nú nýjar leiðbeiningar verið gefnar út með fyrirvara um frekari breytingar eða uppfærslu á þeim þegar ný reglugerð um umferðarmerki mun taka gildi. Nýjar leiðbeiningar eru skýrari og ýtarlegri en áður, lágmargsgildi uppfærð og ný atriði komin inn sem ekki voru áður hluti af leiðbeiningunum. Á meðan uppfærslu á leiðbeiningunum stóð yfir var haft samráð við alla helstu hagsmunaaðila, (t.a.m. lögreglu og Landssamtök hjólreiðamanna o.fl.). Einnig var kallað eftir rýni á þeim frá verkfræðistofum sem skiluðu inn sínu áliti. Á Vegagerðin síðan stóran þátt í útgáfu leiðbeininganna og eru þær nú sem hluti af þeirra hönnunar leiðbeiningum.

Bæta aðstæður til hjólreiða

Leiðbeiningar um hönnun fyrir hjólreiðar eru settar fram með það að markmiði að tryggja með samræmdum hætti örugga og greiða umferð hjólreiðamanna. Þetta er í samræmi við markmið svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og skipulagsáætlana allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og stjórnvalda um að bæta aðstæður til hjólreiða.

Á undanförnum árum hefur verið allmikil uppbygging innviða fyrir reiðhjól, oft sameiginlegir stígar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, en í einhverjum tilfellum stígar og reinar eingöngu ætlaðar hjólreiðamönnum. Við þær framkvæmdir hefur að miklu leyti verið stuðst við leiðbeiningar Reykjavíkurborgar frá 2012 en einnig leiðbeiningar annarra þjóða.

Starfshópur og ráðgjafar

Starfshópinn skipuðu eftirfarandi aðilar: Kristinn Jón Eysteinsson og Björg Helgadóttir, Reykjavíkurborg, Bjarki Valberg, Kópavogur, Helga Stefánsdóttir, Hafnafjörður, Baldur Pálsson, Seltjarnarnes, Tómas Guðbergsson, Mosfellsbær og Guðbjörg Brá Gísladóttir, Garðabær. Ráðgjafar sem sátu fundi starfshóps: Bryndís Friðriksdóttir, Bergþóra Kristinsdóttir og Ragnar Gauti Hauksson, EFLU. Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir yfirverkfræðingur samgöngumála hjá Reykjavíkurborg stýrði m.a. samráði við almenning og uppfærslu leiðbeininganna á tímabili. 

Tengill

HÖNNUNARLEIÐBEININGAR FYRIR HJÓLREIÐAR