Ný stefna í málefnum eldri borgara | Reykjavíkurborg

Ný stefna í málefnum eldri borgara

fimmtudagur, 8. mars 2018

Ný stefna í málefnum eldri borgara fram til ársins 2022 var samþykkt í borgarstjórn sjötta mars. Hún var  mótuð með hliðsjón af áherslum velferðarráðs um nýsköpun, notendasamráð, heilsueflingu, velferðartækni , forvarnir og endurhæfingu í daglegu lífi.

  • Hópur fólks nýtur lífsins í miðborginni.
    Öldruðum fjölgar og hópur eldri borgara er fjölbreyttur og þarfir þeirra ólíkar.
  • Fólk nýtur útivistar á Austurvelli.
    Lögð er áhersla á Reykjavík sem aldursvæna og heilsueflandi borg sem tekur mið af þörfum allra íbúa.

Ýmis hagsmunasamtök, notendur, starfsmenn og stýrihópur um aldursvæna borg og öldungaráð borgarinnar voru til ráðgjafar við stefnumótunina.

Í nýrri stefnu er lögð áhersla á Reykjavík sem aldursvæna og heilsueflandi borg sem tekur mið af þörfum allra íbúa. Einkunnarorð Reykjavíkur, virðing, virkni og vinátta er leiðarljós stefnunnar.

Öldruðum fjölgar og hópur eldri borgara er fjölbreyttur. Það kallar á margvíslegar lausnir á öllum sviðum, innan heimilis og utan. Ný tækifæri liggja í velferðartækni, á sviði aðgengismála, upplýsingatækni, skipulagsmála, velferðar og í húsnæðismálum.

Reykjavíkurborg vill standa vörð um þá sem standa höllum fæti á efri árum. Sérstaklega þarf að tryggja jafnan aðgang efnaminni eldri borgara, innflytjenda og hinsegin fólks að þjónustu, stuðningi og ráðgjöf á vegum borgarinnar.

Sýn Reykjavíkurborgar er að eldri borgarar eigi að ráða sér sjálfir og að öll aðstoð skuli taki mið af því að fólk fái tækifæri til að viðhalda færni sinni og því sé gert kleift að lifa því lífi sem það kýs. Leiðarljós í stefnu í málefnum eldri borgara til ársins 2022 er virkur Reykvíkingur alla ævi.

Efla skal félagsauð í hverfum með því að stuðla að þátttöku borgarbúa og samstarfi allra hagsmunaaðila. Sérstaklega verði hugað að því að virkja til þátttöku eldri borgara sem eru félagslega einangraðir og þurfa hvatningu og stuðning.

Á næstu árum verður tryggt að víða verði framkvæmdar þjónustukannanir í þjónustu borgarinnar við aldraða og lífskjarakannanir að lágmarki á fjögurra ára fresti til að fá yfirsýn yfir hagi og líðan eldri borgara.

Stefna í málefnum eldri borgara 2018-2022